Vill framlengja lokun skemmtistaða til næsta sunnudags

20.09.2020 - 14:33
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagðist á upplýsingafundi almannavarna í dag vilja framlengja lokun skemmtistaða og kráa til næsta sunnudags, 27. september. Að öðru leyti leggur hann ekki til að ráðist verði í harðari aðgerðir. Hann sagði að staðan þyrfti að vera í stöðugri endurskoðun og að yfirvöld væru reiðubúin að grípa fljótt til aðgerða.

Aðspurður hvers vegna ekki væri gripið til harðari aðgerða núna sagðist Þórólfur telja að með góðu smitrakningarstarfi væri hægt að einangra og afmarka vandamálin betur heldur en gert væri með því að setja takmarkanir á allt landið eða stórt landsvæði. Hann segir enga stefnubreytingu felast í þeirra ákvörðun að grípa ekki til harðari aðgerða nú. Þá benti hann á að yfirvöld hefðu nú þegar gripið til harðra aðgerða og bætt í smitrakningu.

Þórólfur sagðist óánægður yfir því að enn væri fólk gjarnan á ferðinni þrátt fyrir að vera veikt. Hann bað fólk um að halda sig heima og bíða sýnatöku og sagði að þeir sem hefðu einkenni hefðu forgang í sýnatöku. Sennilega væri ekki skynsamlegt eins og staðan er núna að skima úrtak af handahófi. Skynsamlegast væri að skima fólk sem tengdist smitum og fólk með einkenni. 

Hann sagði að með aðgerðum á landamærum og aðgerðum innanlands ættum við að geta tryggt að veiran valdi hér lágmarksskaða og að sama skapi mætti þannig tryggja að aðgerðirnar sjálfar valdi lágmarksálagi á íslenskt samfélag. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi