Tveir þingmenn Repúblikana vilja bíða með skipun dómara

epa08674181 Republican Senator from Alaska Lisa Murkowski walks from a Republican luncheon on Capitol Hill in Washington, DC, USA, 16 September 2020. Negotiatons between Republican and Democratic leaders on a coronavirus stimulus package have stalled.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lisa Murkowski, öldungardeildarþingmaður Repúblikana frá Alaska, lýsti því yfir í dag að hún sé andvíg því að greiða atkvæði um staðfestingu nýs hæstaréttardómara þegar svo skammt er til forsetakosninga. Donald Trump Bandaríkjaforseti vill tilnefna arftaka Ruth Bader Ginsburg sem fyrst. Bæði Trump og Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, vilja staðfesta nýjan dómara fyrir kosningar. McConnell kom í veg fyrir skipun hæstaréttardómara fyrir síðustu kosningar.

Ginsburg lést á föstudag. Þá opnaðist sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna. Mikil umræða hefur verið um hvort fylla ætti sætið fyrir eða eftir kosningar. McConnell neitaði að taka til umræðu tilnefningu Baracks Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, í aðdraganda forsetakosninga 2016. Því var það á valdi Repúblikanans Trumps en ekki Demókratans Obama að tilnefna hæstaréttardómara.

Murkowski sagði í dag að hún myndi standa gegn atkvæðagreiðslu um nýjan hæstaréttardómara svo nærri forsetakosningum. Susan Collins, öldungadeildarþingmaður Repúblikana í Maine, hafði áður sagt að hún vildi að sá sem sigrar í forsetakosningunum í nóvember tilnefni nýjan hæstaréttardómara. Repúblikanaflokkurinn hefur 53 þingsæti af 100 í öldungadeildinni auk þess sem varaforsetinn ræður úrslitum ef atkvæði falla á jöfnu. Því þyrftu fjórir Repúblikanar að ganga úr skaftinu til að Trump gæti ekki útnefnd og fengið samþykktan nýjan hæstaréttardómara fyrir kosningar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi