Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Skólastarf í Þórshöfn raskast vegna kórónuveirusmits

Skjáskot úr fréttum færeyska Kringvarpsins af biðröð bíla og fólks eftir að fara í skimun vegna kórónuveirunnar. Frá Þórshöfn og Klakksvík
 Mynd: KRF - Kringvarp Færeyja
Þrjú ný kórónuveirusmit greindust í Færeyjum í gær, laugardag. Virk smit í eyjunum eru nú tuttugu og tvö.

Landlæknir Færeyja hefur tilkynnt að fjölskylda í Þórshöfn hafi greinst með veiruna. Börnin stunda nám á öllum skólastigum.

Enn er óljóst hvernig fjölskyldan smitaðist og eins hvort þau hafi smitað aðra. Vegna málsins hefur menntamálaráðherra ákveðið að flest starfsfólk og nemendur skólanna þriggja fari í tvöfalda skimun við kórónuveirunni.

Fyrri skimunin fór fram í dag og heldur áfram á morgun. Sú síðari verður gerð á miðvikudag en farið er fram á að öll þau sem skimuð eru haldi sig heima þar til örugg, neikvæð niðurstaða liggur fyrir.

Engin kennsla verður í framhaldsskóla elsta barnsins á mánudaginn og frá þriðjudegi og út vikuna fer öll kennsla fram í gegnum fjarfundarbúnað.