Sjálfstæðismenn funda um mögulegan meirihluta

20.09.2020 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Þreifingar um myndun meirihluta í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi gætu hafist síðar í dag. Sjálfstæðisflokkurinn fékk flesta menn í sveitarstjórnarkosningum í gær, er í lykilstöðu og ræðir kosti sína á fundi í dag.

Sjálfstæðismenn fengu mest fylgi, 29% og fjóra menn. Austurlistinn litlu minna eða 27% og þrjá menn. Framsókn fékk 19% og tvo fulltrúa. VG fékk 13% og einn fulltrúa. Miðflokkur fékk 11% og einn fulltrúa. 

Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkur getur myndað tveggja flokka meirihluta með Austurlista eða Framsókn. 

Sjálfstæðismenn hittast í dag

Við heyrðum í Gauta Jóhannessyni, oddvita sjálfstæðismanna, í nótt þegar úrslitin voru ljós. „Éghef verið í ágætu sambandi við þeta fólk í aðdraganda þessara kosninga en það eru engar formlegar þreifingar byrjaðar. Ég ætla bara að setjast yfir þetat mé mínu fólki á morgun þegar sigurvíman rennur af okkur og þáskoðum við þetta og bregðust við í samræmi við það,“ Sagði Gauti oddviti sjálfstæðismanna í nótt. Þeir hittast síðar í dag og fara yfir stöðuna. 

Austurlisti og Framsókn virðast tilbúin til samstarfs við sjálfstæðismenn

Hildur Þórisdóttir oddviti Austurlistans sagði í viðtali við Austurfrétt í nótt að hún teldi rökrétt að þeir sem fengu flest atkvæði, sjálfstæðismenn, hefðu samband við þá sem fengu næst flest atkvæði, þá Austurlistann. 

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti framsóknar segir niðurstöðuna ekki í samræmi við markmið. Engar formlegar viðræður séu hafnar en samstarf framsóknar og Sjálfstæðisflokks á Fljótsdalshéraði hafi gengið mjög vel. 

Einnig er hægt að mynda þriggja flokka meirihluta Framsóknar og Austurlista með annað hvort VG eða Miðflokki. 

Heimastjórnir

Það var líka kosið í fjórar heimastjórnir sem fara með ákveðin mál í heimabyggð. 

Á Borgarfirði eystra voru Alda Marín Kristinsdóttir kjörin með 30 atkvæði og Ólafur Hallgrímsson með 27. 

Á Seyðisfirði fékk Ólafur Sigurðsson 171 atkvæði og Rúnar Gunnarsson 76.

Á Fljótsdalshéraði hlaut Dagmar Ýr Stefánsdóttir 463 atkvæði og Jóhann Gísli Jóhannsson 163.

Í Djúpavogshreppi náðu kjöri þeir Kristján Ingimarsson með 47 atkvæði og Ingi Ragnarsson með 41. 

Kosningaþátttaka var aðeins 63,% í nýja sveitarfélaginu öllu, en þar munar mest um mjög slaka þátttöku á Fljótsdalshéraði sem var aðeins tæp 60%. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi