Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ólympískur sviti og erótík hjá Ultraflex

Mynd: Okay Kaya / .

Ólympískur sviti og erótík hjá Ultraflex

20.09.2020 - 10:16

Höfundar

Íslensk-norska dúóið Ultraflex gaf út sitt þriðja lag í vikunni, Never Forget My Baby, og því meðfylgjandi er sindrandi fagurt tónlistarmyndband uppfullt af léttleikandi spegilmyndarómans með snjóþveginni áferð og dúnmjúkum fókus.

Ultraflex er samstarfsverkefni Katrínar Helgu Andrésdóttur sem er þekkt undir listamannsnafninu Special K og hinnar norsku Farao. Ég hafði ekki heyrt um Farao áður en hún virðist vera nokkuð nafnkunn tónlistarkona sem hefur fengist við blöndu af þjóðlagatónlist og rafpoppi á tveimur breiðskífum síðustu fimm ár, og önnur þeirra Till It’s All Forgotten, sem kom út 2015, fékk nokkuð góðan dóm á Pitchfork.

Katrín Helga lét fyrst að sér kveða sem liðskona í rapphreyfingunni Reykjavíkurdætrum og sem annar helmingur Hljómsveitt, á móti Önnu Töru Andrésdóttur sem einnig var Reykjavíkurdóttir. Katrín Helga venti svo kvæði sínu í krúttpoppskross og gaf út ep-plötuna I Thought I Be More Famous by Now undir listamannsnafninu Special K og útvíkkaði síðar í breiðskífu með sama titli. Krúttið hefur ekki verið sérlega lífvænlegt almennt síðasta áratuginn eða svo en þarna dró Katrín Helga fram allt múm-vopnabúrið og gamnaði sér á melódikkur, sílafóna og allra handa dótapíanó og spiladósir. En lögin voru góð og rödd Katrínar akkúrat passlega brothætt, og hún framreiddi dúndurgott þúsaldarkrútt- og snjókornapopp. Sem kristallast hvergi betur en í opnunar- og titillaginu I Thought I Be More Famous By Now, Ég ætti að vera orðin frægari, hvers titill útskýrir sig eiginlega sjálfur.

Þarna syrgir Katrín Helga stöðu sína í lífinu og óskar þess að hún væri frægari, þrátt fyrir að hafa ekki gengið í gegnum neinn raunverulegan harm eða unnið fyrir frægðinni. „Ég er 25 ára og hef ekki gert mikið við líf mitt, á bara tvö ár eftir í rokkstjörnualdurinn, ég hélt einhvern veginn að ég myndi vera orðin frægari núna,“ syngur hún. Og lagatitlarnir á plötunni segja sína sögu um kvíðaþrungna og samfélagsmiðlaða, en þó átakalausa tilveru, milleníalanna, Imposter Syndrome Self Help Song, Date Me Im Bored, Hide Your Crazy og Almost Famous eru þar á meðal.

Og nú heldur Katrín Helga enn inn á nýjar lendur með sveitinni Ultraflex sem er gerð út frá Berlín og gaf út sitt fyrsta lag, Olympic Sweat, á útgáfunni Street Pulse Records í maí. Í þetta skipti er það synþadrifið stemningspopp sem hún og norska samstarfskona hennar spreyta sig á með sterkum tengingum við nýrómantík níunda áratugarins og Ítaló-diskó. Lagið ólympískur sviti er ósunginn hljóðgervlaópus með hetjulegum hljómagangi og minnir ekki lítið á kvikmyndatónlist aldna diskómeistarans Giorgios Moroders, í allri sinni dúndrandi og bergmálstrommuðu dýrð.

Mynd með færslu
 Mynd: Celine Paradis - .

Laginu fylgdi svo myndband þar sem stöllurnar tvær klæðast hvítum samfestingum og skokka í slow-motion gegn um berlínska almenningsgarða og niður langar ráðhúströppur og andrúmsloftið er eins og myndflétta (e. montage) í 80‘s íþróttamynd í ætt við Rocky eða Karate Kid. Þær hlaupa þokkafullt hvor í sínu lagi en koma saman í lokin og valhoppa hönd í hönd áður en þær koma sér fyrir og taka vel kóríógrafað teygju- og mullersæfinga-session sem er svo fullkomlega samhverft að Wes Anderson gæti hafa leikstýrt því.

Næsta lag Ultraflex kom út um miðjan ágúst og heitr Work Out Tonight. Því var hrynt úr vör með útpældri fréttatilkynningu á pdf-formi, með beige-lituðum bakgrunni og takkí Word-arti, sem minnir helst á vefsíður mið- til síð- tíunda áratugarins, áður en önnur útgáfa veraldarvefsins tók við. Norræna samstarfið reynir á raddböndin yfir synþapoppið að þessu sinni en alls ekki á hefðbundinn hátt, heldur hvísla þær kynæsandi í lauslegri þýðingu minni; „herbergi fullt af holdi, svitnandi saman, hormónísk losun, líkamlegur unaður, rök föt límast við húðina, andið út hægt, andið inn.“ Þetta einhvers konar Jane Fonda-eróbikklag með áberandi erótískum og allt að því klámfengnum undirtónum, en viðlagið hljómar svo;  „I’m gonna make you work it tonight / Gonna make you work out tonight / I’ve seen your body and I know you do it right / And I wanna do it all night.“ Í myndbandinu klæðast þær vintage adidaspeysum við stutt pils og hjólabuxur og strunsa um á eiturgrænum háhælaskóm í stíl milli þess sem þær baða sig í stöðuvatni og myndavélin súmmar inn á andlitin á þeim.

Nýjasta lag Ultraflex kom svo út í vikunni og því fylgir enn á ný frábært myndband, að þessu sinni leikstýrt af Jóhönnu Rakel sem var í Reykjavíkurdætrum en er núna í Cyber, og gaf einnig út frábæru konsept-stuttskífuna I‘m Your New Step Mom árið 2018. Lagið Never Forget My Baby er poppaðasta lag Ultraflex af þessum þremur sem út hafa komið og þær tileinka það dívunum Janet Jackson og Cher. Lagið er með grip eins og góður körfubolti og söngur Katrínar Helgu og Farao er seyðandi en að sama skapi loftkenndur og dannaður. Andrúmsloftið minnir mig talsvert á 80‘s unglingamyndir Johns Hughes og myndbandið ýtir undir það, þar sem Jóhanna Rakel dansar á nærfötum fyrir framan spegla í mjúkum fókus, drekkandi kokteila, eins og blautur dagdraumur táningsstráks hyldjúpt í áttunni.  

En lagið minnir líka á margt það besta í kvenlægu skandinavísku elektrópoppi síðasta rúma áratug eða svo; það eru margir bollar af Robyn þarna, vænn slurkur af Royksopp, desilíter eða tveir af Annie og skvettur af Lykke Li, Bat For Lashes og The Knife. Annað sem kom upp í hugann var neonlöðrandi rökkurdiskó bandarísku rafsveitarinnar Chromatics. Sykursætar raddirnar sveima einhvern veginn yfir tónlistinni og kallast á í viðlaginu. Í myndbandinu brestur svo skyndilega á með synþasólói þar sem Katrín Helga og Farao standa og dansa uppi í rúmi í pastelbleikum drögtum og spila á hljómborð í sama lit.

Þessi þrjú lög og tilheyrandi myndbönd sem Ultraflex hafa gefið út bera vitni um skýra tónlistarlega sýn og fastmótaða sjónræna fagurfræði - þar sem tungan er kirfilega út í kinn níunda áratugarins en samt er aldrei verið að gera grín að honum. Þau lofa góðu og ég leyfi mér að vera spenntur fyrir breiðskífunni Vision of Ultraflex sem er væntanleg 30. október.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Tæki því sem hrósi ef Kellogg's færi í mál við mig”

Popptónlist

Ultraflex, When 'Airy Met Fairy og Volcanova með nýtt

Popptónlist

Endurspeglar ljúfsára melankólíu hversdagsins

Tónlist

„Okkur er ekki alveg boðið“