Ólafur Darri á nálum yfir Ráðherranum

Mynd: Lilja Jónsdóttir / Sagafilm

Ólafur Darri á nálum yfir Ráðherranum

20.09.2020 - 12:49

Höfundar

Ólafur Darri Ólafsson er alla jafna ekki stressaður fyrir „stóra kvöldinu“ svokallaða, enda leikari hokinn af reynslu. Nýjasta verkefnið, sjónvarpsþáttaröðin Ráðherrann þar sem hann fer með aðalhlutverkið, reynist honum þó erfiðara en önnur.

Ráðherrann er nýr íslenskur sjónvarpsþáttur sem fjallar um háskólakennarann Benedikt Ríkarðsson. Hann er dreginn inn í pólitík, endar sem formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og verður í kjölfarið forsætisráðherra Íslands. Eftir nokkra mánuði í starfi fer að bera á andlegum veikindum hjá honum og þá þarf samstarfsfólk hans að leggja stöðugleika ríkisins og einkalíf sitt að veði til að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni.

Fyrsti þátturinn verður sýndur í kvöld á RÚV. „Það er spenna og smá kvíði,“ segir Ólafur Darri í samtali við Hrafnhildi Halldórsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2. Hann segist þó yfirleitt ekki verða svo stressaður fyrir stóra kvöldinu í seinni tíð. „Mér finnst það alveg hafa breyst en ég er svolítið stressaður fyrir Ráðherranum. Ástæðan fyrir því er frekar einföld. Ég er að leika mann sem er að glíma við sjúkdóm sem ég hef aldrei fengið og vonast til að fá aldrei. Það er svolítið erfitt þegar maður er leikari að leika eitthvað sem maður hefur ekki upplifað.“

Ólafur segist hafa upplifað léttar maníur og þunglyndi, glímt við kvíða og annað – en það sé líklega bara nasaþefurinn af því sem aðalpersóna þáttanna upplifir. „Þá varð ég smá kvíðinn. Og ef ég er alveg hreinskilinn þá er ég bara kvíðinn af því ég vona að það fólk sem hefur glímt við þennan sjúkdóm og aðstandendur þeirra sem hafa þurft að glíma við geðhvarfasýki, að þau séu ánægð og finnist ég ekki hafa gert þetta illa.“

Hefur ekki getað horft á þáttinn

Hann hefur ekki haft það í sér að horfa á þættina vegna kvíðans. „Ég byrjaði að horfa á einn þátt en gat ekki horft á þetta, út af þessu meðal annars, að ég fann að ég varð smá kvíðinn. Ég ætla að reyna að horfa á þetta í kvöld og ég vona að fólk njóti þess vel.“

Ráðherrann fyrsti þáttur
 Mynd: - - Ráðherrann
Ólafur Darri segir að hann sé ekki einn um að vera á nálum yfir þáttunum.

Með helstu hlutverk fara, auk Ólafs Darra, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Aníta Briem og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Leikstjórar þáttanna eru Nanna Kristín Magnúsdóttir og Arnór Pálmi Arnarsson og handritshöfundar eru Birkir Blær Ingólfsson, Björg Magnúsdóttir og Jónas Margeir Ingólfsson.

„Ég veit að ég get talað fyrir hönd okkar allra að við erum öll svolítið á nálum og hlökkum mikið til,“ segir Ólafur Darri. „Ég held að Sagafilm hafi gert þetta óskaplega vel og ég er stoltur af RÚV og Sagafilm að hafa þorað að gera svona seríu. Þetta er náttúrulega ekki glæpasería, sem hefur verið það sem við höfum verið að einbeita okkur að, sem er eðlilegt, það er svona grein sem er vel þekkt. En þetta er svolítið öðruvísi sería. Hún er að sjálfsögðu um pólitík að einhverju leyti en hún er aðallega um fólkið í pólitíkinni, sjúkdóminn og aðstandendur þeirra sem þurfa að glíma við þennan sjúkdóm. Og kannski aðstandendur þeirra sem þurfa að glíma við fólk sem er í pólitík.“

Hlustaðu á viðtal Hrafnhildar Halldórsdóttur við Ólaf Darra í Sunnudagssögum Rásar 2 í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Reyndum virkilega að koma okkur í þennan hugarheim“

Sjónvarp

„Magnað hvernig eineltið situr í mér“

Stjórnmál

„Leyfum við stjórnmálamönnum að vera andlega veikir?“

Sjónvarp

Einstigi milli snilligáfu og geðveiki