Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Niðurstöður liggja fyrir í Múlaþingi

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Niðurstöður kosninga til sveitarstjórnar og heimastjórna í Múlaþingi, nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi lágu fyrir skömmu eftir miðnætti.

Kosningum til sveitarstjórnar og heimastjórna í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi lauk klukkan tíu í kvöld. Þá var síðustu kjörstöðunum lokað, á Egilsstöðum og Seyðisfirði.

Kjörstöðum á Borgarfirði eystra og Djúpavogi var lokað klukkan fimm og sex í dag. Á kjörskrá voru 3518 en 2233 mættu á kjörstað. Kjörsókn var því heldur dræm, einkum á Fljótsdalshéraði að sögn Bjarna G. Björgvinssonar formanns yfirkjörstjórnar. Hann kveðst enga skýringu hafa á því nema mögulega hve kjörtímabilið er stutt.

Ellefu sitja í nýrri sveitarstjórn. Niðurstöður eru þær að Sjálfstæðisflokkurinn fær fjóra menn kjörna, Austurlistinn þrjá, Framsóknarflokkurinn tvo og Miðflokkur og Vinstri græn einn mann hvort framboð. 

Auk sveitarstjórnarinnar sjálfrar voru valdir fulltrúar í svokallaðar heimastjórnir. Hver og einn íbúi á viðkomandi svæði var í kjöri til heimastjórnar en formlega gáfu 18 kost á sér. 

Á Borgarfirði eystra voru Alda Marín Kristinsdóttir kjörin með 30 atkvæði og Ólafur Hallgrímsson með 27.  Á Seyðisfirði fékk Ólafur Sigurðsson 171 atkvæði og Rúnar Gunnar Gunnarsson 76.

Á Fljótsdalshéraði hlaut Dagmar Ýr Stefánsdóttir 463 atkvæði og Jóhann Gísli Jóhannsson 163. Í Djúpavogshreppi náðu kjöri þeir Kristján Ingimarsson með 47 atkvæði og Ingi Ragnarsson með 41. 

Sveitarfélagið Múlaþing varð til við sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Kosið var um nafn á sveitarfélagið í sumar.