Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Leggja mat á „alvarleika ástandsins“

20.09.2020 - 12:32
Frá upplýsingafundi Almannavarna 12. ágúst 2020
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ� - RÚV
38 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Ekki er búið að taka ákvörðun um hertar aðgerðir. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að verið sé að leggja mat á alvarleika ástandsins . Undanfarna daga eru níutíu og tvö smit rakin til skemmtistaða í Reykjavík.

92 smitast á skemmtistöðum

Ekki er búið að taka ákvörðun um hertar aðgerðir. „Sóttvarnarlæknir er að ráðfæra sig við sína ráðgjafa. Menn eru að ræða þetta fram og til baka. Auðvitað er verið að reyna að leggja mat á ekki bara tölurnar heldur líka hvaða sýni hafa verið tekin, hvernig staðan er á þeim sem eru veikir, er verið að leggja einhvern inn á sjúkrahús og þetta heildstæða mat á alvarleika ástandsins ekki bara út frá tölunum,“ segir Víðir Reynisson.

Meirihluti skimaðra sýnir einkenni

Í fyrradag greindust 75 smitaðir af kórónuveirunni og höfðu ekki fleiri greinst sýktir á einum sólarhring  í að verða hálft ár. Þá voru um 3300 sýni tekin. Í gær voru 1400 skimaðir, mikill meirihluti þeirra sýndi einkenni covid-19 eða 1077. Hópsýkingin er rakin til skemmtistaða í Reykjavík, þar sem yfir níutíu manns smitast undanfarna daga.

„Það eru ákveðin jákvæð teikn í því að við erum að taka svipað af sýnum af fólki með einkenni  í gær og daginn þar áður og það er mælanleg fækkun. Við höfum séð þetta áður í faraldrinum og þetta hefur sveiflast milli daga. Þannig það er of snemmt að draga ályktanir. Skýru skilaboðin okkar núna er að það fari allir varlega. Fólk sem getur verið í heimavinnu verði í heimavinnu núna í vikunni,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.

Höfða til fólks í stað reglugerða

Sóttvarnarlæknir mæltist til þess í gær að þeir sem gætu ynnu að heiman eftir helgi og að framhalds- og háskólar biðu upp á fjarkennslu. „Þar af leiðandi hægjum við á allri umferð og samneyti fólks. Það er kannski það sem hertar aðgerðir ganga út á. Kannski þurfum við að fá fólk til að gera þetta en að segja því með reglugerðum hvað við viljum að gerist næstu daga.“

Þá fjölgaði um 525 í sóttkví milli daga. Nú eru 215 í einangrun á landinu. Lang flestir í aldursflokknum 18-29 ára eða um áttatíu manns. Nærri fimmtíu eru í einangrun á aldrinum 30-39 ára. Eitt barn undir fimm ára greindist í gær.