Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landspítalinn færður á hættustig

20.09.2020 - 14:10
Landspítalinn við Hringbraut.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Landspítalinn hefur verið færður úr óvissustigi yfir á hættustig. Þetta var ákveðið á fundi viðbragðsstjórnar og farsóttarnefndar spítalans í dag.

Smit meðal starfsfólks

Smit hafa greinst meðal starfsfólks Landspítalans og um 200 hafa verið sendir í sóttkví. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum. 

Umfangsmiklar skimanir fyrir COVID-19 fara fram í dag og gert er ráð fyrir að mikill fjöldi starfsfólks verði í úrvinnslusóttkví þar til niðurstöður liggja fyrir. Þeir sem talið er að hafi orðið útsettir fyrir smiti, í kringum 100 manns, verða áfram í sóttkví eftir að niðurstöður úr skimun liggja fyrir.

Smit greindust annars vegar í Skaftahlíð 24 þar sem eru skrifstofur og kennslurými og hins vegar í skurðlækningaþjónustu. Sóttkví starfsfólks kann að hafa áhrif á starfsemi spítalans. En ekki er gert ráð fyrir að þjónusta við sjúklinga skerðist eins og stendur. Nú er unnið að endurskipulagningu þjónustuþátta til að tryggja áframhaldandi þjónustu. 

Nýjar reglur fyrir starfsfólk

Starfsfólki spítalans ber að hafa grímur á öllum starfstöðum spítalans og í matarhléum þarf það að halda tveggja metra bili sín á milli. Fundir starfsfólks mega aðeins fara fram rafrænt nema brýna nauðsyn beri til annars. Allir sem geta unnið heima eiga að gera það. 

Í tilkynningu frá spítalanum kemur einnig fram að aðeins einn gestur geti heimsótt hvern sjúkling á dag og að allir gestir þurfi að bera grímur. 

Ríflega 200 sjúklingar eru í eftirliti á COVID-19-göngudeildinni og 2 sjúklingar liggja á spítalanum með COVID-19. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV