Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Í kapphlaupi við kvenleikann

Mynd: EPA / EPA

Í kapphlaupi við kvenleikann

20.09.2020 - 14:00
Hvað er það að vera „nógu mikil“ kona? Alþjóða frjálsíþróttasambandið telur sig hafa fundið niðurstöðuna í mæliglasi og hefur á grundvelli þess útilokað einn fremsta hlaupara heims frá keppni. Anna Marsibil Clausen fer yfir sögu og samhengi Caster Semenya í pistli í Lestinni á Rás 1.

Nýverið hef ég verið að taka mig á í ræktinni. Meðfram aðeins hefðbundnari hopp og skopp tímum byrjaði ég að lyfta þungt einu sinni í viku, og árangurinn lætur ekki á sér standa. Allt í einu eru vöðvar að stækka sem ég var búin að gleyma að ég ætti til. Uppfull af stolti sýni ég öllum sem ég hitti nýju byssurnar, þar með talið kvensjúkdómalækninum mínum.

„Já, þetta er frábært,“ sagði hann, þar sem ég mundaði tvíhöfðann. „Þið PCOS stelpur eruð einmitt oft svo náttúrulega sterkar útaf öllu auka testósteróninu.“

PCOS stendur fyrir Polycystic Ovary Syndrom, eða fjölblöðrueggjastokkaheilkenni. Það er ekki beint sjúkdómur, heldur samansafn einkenna, sem til koma vegna aukins magns andrógena - eða karlhormóna - og þá aðallega í kvenlíkömum, meðal annars mínum. 

Talið er að ein af hverjum tíu konum sé með PCOS. Við PCOS konur erum fæstar með “öll” einkenni PCOS. Sumar okkar fara kannski sjaldan eða aldrei á túr og eru með fáeinar bólur á meðan aðrar glíma við mikinn vöxt líkamshára, offitu og sykursýki 2, svefnraskanir, þunglyndi, linnulausar blæðingar og ófrjósemi. 

Ég hef átt í mjög erfiðu sambandi við líkama minn síðustu ár vegna sumra þessara einkenna en ég hef alltaf kunnað að meta það að vera líkamlega sterk. Hvað sem öðrum einkennum líður, get ég þakkað þessu auka testósteróni það að ég sé íþróttamannslega byggð frá náttúrunnar hendi.

Og þess vegna, langar mig að segja ykkur, kæru lesendur, frá Caster Semenya.

Caster Semenya fæddist árið 1991 í Suður Afríku. Hún á tvö Ólympíugull og er þrefaldur heimsmeistari í 800 metra hlaupi en Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur bannað henni að keppa aftur í greininni. Nema hún taki inn lyf til þess að minnka magn testósteróns sem líkami hennar framleiðir náttúrulega. 

Grunuð um græsku

Saga okkar hefst árið í ágúst 2009. Þá var Semenya 18 ára gömul og að keppa í flokki fullorðinna á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í fyrsta skipti. Fyrir mótið, sem var haldið í Berlín, þótti enginn keppandi áberandi sigurstranglegastur í 800 metrunum, enda skiptu 17 hlauparar þá með sér 20 bestu tímum ársins. En þegar í úrslitin var komið skildi Semenya sig frá hópnum eftir um hálfa mínútu og jók enn á forskot sitt. Hún kom í mark á einni mínútu, 55 sekúndum og 45 sekúndubrotum. Hún tók gullið, sinn fyrsta heimsmeistaratitil, átti besta tíma ársins og bætti sinn besta tíma í þokkabók um fjórar sekúndur. 

En það þótti furðu sæta. Fjórar sekúndur eru mikið í hlaupi, sérstaklega þar sem Semenya sargaði þær af á einungis einum mánuði. Gat verið að Semenya væri að dópa? Nei. En hún var nú kannski svolítið...karlmannleg. 

Alþjóða frjálsíþróttasambandinu fannst það allavega, og ákvað að fara fram á að hún gengist undir kynstaðfestingarrannsókn. Sú ákvörðun var harðlega gagnrýnd af öðru íþróttafólki, samfélagsleiðtogum og blaðamönnum, ekki síst frá heimalandi hennar, Suður Afríku. Prófið þótti ekki bara vera enn ein innrásin í kvenlíkamann heldur einnig í svarta líkama, merki um heimsveldishyggju og stjórnunarþörf hvíta mannsins. Semenya samþykkti þó rannsóknina. Í kjölfarið kom meðal annars í ljós að hún hafði gengist undir sambærilega rannsókn á vegum Íþróttasamabands Suður Afríku, en að logið hafi verið að henni um tilgang hennar.

Fékk að halda titlinum

Niðurstöður prófanna voru aldrei gefnar út opinberlega en Semenya fékk í það minnsta að halda heimsmeistaratitlinum og halda áfram að keppa í kvennaflokkum. Á þeim tíma sem rannsóknin stóð yfir datt hún aðeins úr formi en hún var fljót að ná sér aftur á strik og var upprunalega í öðru sæti, í 800 metrunum á heimsmeistaramótinu 2011, en hlaut svo gullið eftir að Mariya Savinova var dæmd úr leik fyrir neyslu ólöglegra lyfja. Sú saga endurtók sig á ólympíuleikunum í Lundúnum 2012. Árið 2016 hlaut hún gullið á ólympíuleikunum í Ríó og 2017 varð hún þriðja sinni heimsmeistari í 800 metrunum og hlaut bronsið í 1500 metrunum. 

Meðan á þessu stóð hafði Alþjóða frjálsíþróttasambandið komið á nýrri reglu, um að kvenkyns íþróttamenn með náttúrulega aukið testósterón magn í líkömum sínum mættu ekki keppa nema þær tækju lyf til að lækka gildin. Alþjóða íþróttadómstóllinn í Sviss komst að þeirri niðurstöðu að sönnunargögn skorti um að aukið testósterón bætti frammistöðu íþróttamanna og felldi regluna því úr gildi. En Alþjóða frjálsíþróttasambandið var ekki af baki dottið. 

epaselect epa07642268 Caster Semenya of South Africa reacts after the women's 2000m race at the International athletics meeting in Montreuil, near Paris, France, 11 June 2019.  EPA-EFE/Julien de Rosa
 Mynd: EPA

Í apríl 2018 kynnti sambandið nýjar reglur, um íþróttamenn með það sem sambandið kallar „disorders of sex development“: „röskun í þróun kynfæra“. Tekið skal fram að Intersex ísland telur þessa orðanotkun gefa til kynna að intersex breytileiki sé á sjúkdómur eða kvilli sem þurfi að lækna og að slíkt, fordómafullt tungutak leiði til jaðarsetningar intersex fólks. 
Samkvæmt nýju reglunum þurfa intersex íþróttamenn, með aukið testósterón magn í líkamanum að gangast undir lyfjagjöf til að lækka gildin, vilji þær öðlast keppnisrétt í öllum hlaupum frá 400 metrum og upp í eina mílu.

Reglurnar eru sumsé í grunninn nákvæmlega þær sömu og sambandið reyndi upprunalega að setja öllu íþróttafólki í kvennaflokkum nema núna taka þær bara til intersex hlaupara. Þau auknu gildi sem tiltekin eru í reglunum geta þó svo sannarlega komið upp hjá öðrum konum og eru innan þeirra marka sem algengt er að sjá hjá PCOS konum eins og mér. Svo ég má keppa í þessum sömu hlaupum í kvennaflokki, með hvaða testósteróngildi sem líkami minn framleiðir náttúrulega, jafnvel þó þau séu hærri en viðmið Alþjóða frjálsíþróttasambandsins, en intersex fólk má það ekki.
 

Sérsniðnar reglur

Ég veit ekki hvort Semenya er með PCOS. Almenningur veit í sjálfu sér ekki margt annað en það að hún er með aukið testosterón miðað við meðalgildi kvenna. Reikna má með að hún hafi ákveðin intersex einkenni, þar sem regla Alþjóða frjálsíþróttasambandsins tekur sérstaklega til kvenna sem hafa XY litninga og við vitum að reglan gerir Semenya ókleift að keppa í sínum sterkustu greinum nema hún taki inn lyf sem lækka í henni testosterón gildin en gætu einnig haft neikvæð áhrif á heilsu hennar. Og miðað við það að reglurnar taka aðeins til hlaupa í þeim vegalengdum sem Semenya er sterkust í þykir mörgum ljóst að þær hafi verið sérsniðnar á henni. 

Ef hún vill vera memm, þarf hún að grípa inn í. Færast nær þeirri staðalmynd sem Alþjóða frjálsíþróttasamabandið hefur búið sér til af konum. Líkami hennar er of mikið, eða ekki nóg. Eftir því hvernig á það er litið. 

Semenya barðist gegn niðurstöðunni á öllum mögulegum dómstigum. Fyrir íþróttadómstólnum og svo hæstarétti í Sviss. Í síðustu viku tapaði hún málinu, að því er virðist endanlega, þegar hæstiréttur dæmdi í áfrýjun hennar, Alþjóða frjálsíþróttasambandinu í hag. 

Alþjóða frjálsíþróttasambandið segist berjast fyrir jöfnum rétti kvenna og stúlkna í íþróttum. Að náttúruleg líkamsstarfssemi Semenya sé ósanngjörn. En eins og bent hefur verið á síðustu daga hefur slíkum frávikum í líkamsstarfssemi karlkyns íþróttamanna jafnan verið fagnað. 

Sérstaklega hefur verið talað um sundmanninn Michael Phelps í því samhengi, hvers vænghaf er hlutfallslega gríðarstórt. Óvenjuleg liðamót í ökklum gefa sparki hans meira drægi og svo virðist líkami hans framleiða aðeins helming þeirrar mjólkursýru sem eðlilegt er fyrir íþróttamenn af hans kaliberi. Þessari náttúrulegu starfsemi líkama hans hefur alltaf verið fagnað. Hann hefur aldrei verið neyddur á lyf. Ekkert frekar en Shaquille O’Neal var neyddur til að spila á hnjánum af því að það að vera 2.16 metrar á hæð er of langt frá meðalkúrvunni.

epa07539624 (FILE) - Caster Semenya (L) of South Africa is on her way to win the women's 800m race during the Weltklasse IAAF Diamond League international athletics meeting in Zurich, Switzerland, 30 August 2018 (reissued 01 May 2019). The Court of Arbitration for Sport (CAS) announced in Lausanne, Switzerland on 01 May 2019, that it has dismissed Semenya's requests for arbitration to halt the introduction of regulations to reduce testosterone levels in female athletes with differences in sexual development (DSDs).  EPA-EFE/JEAN-CHRISTOPHE BOTT
 Mynd: EPA

Eins og fram kom fyrr í pistlinum hefur ekki verið sannað að aukið testósterón veiti íþróttafólki ósanngjarnt forskot. Þá er hægt að setja spurningamerki við þá hugmynd að náttúruleg starfssemi líkama fólks geti talist ósanngjörn. Meðal þeirra sem standa með Semenya eru Alheimssamtök lækna sem telja regluna brjóta gegn siðferði. Þá telja samtökin hættulegt að láta fólk taka hormóna sökum annarra sjónarmiða en læknisfræðilegra. Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna er á sama máli og hefur kallað eftir því að reglan verði afnumin. 

Deilan gæti verið fordæmisgefandi í málefnum trans íþróttamanna og talar beint inn í veruleika sem intersex og kynsegin fólk glímir við á degi hverjum. Erum við hin, tilbúin að veita þeim sem ekki passa inn í tvíhyggjuna pláss? En dómurinn talar líka beint inn í veruleika allra þeirra kvenna sem ekki upplifa sig nógu kvenlegar af líffræðilegum eða félagslegum ástæðum. 

Hvað er að vera nógu mikil kona?

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Semenya tapaði áfrýjun gegn umdeildri reglu

Frjálsar

„Ég er skotmark af því að ég er ósigrandi“

Frjálsar

Caster Semenya með krók á móti bragði

Frjálsar

„Enginn getur stöðvað mig frá því að hlaupa“