Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Haustar að: Hvassviðri, kuldi, snjókoma og slydduél

20.09.2020 - 07:16
Lauf í hauslitum á jörðinni.
 Mynd: Stocksnap.io
Ört dýpkandi lægð nálgast nú landið úr suðvestri með tilheyrandi vætu og hvassviðri að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Víða verður sunnan gola eða kaldi og rigning í morgunsárið, en í dag gengur í suðvestan og vestan 13 til 20 metra á sekúndu. Þá bætir í úrkomu.

Lægðin fer norðaustur yfir land í kvöld og eftir það dregur víða úr vindi og úrkomu. Heldur hvessir austantil, og um landið norðanvert breytist úrkoman í snjókomu á fjallvegum.

Veðurstofan gerir ráð fyrir að hiti á landinu verði 4 til 12 stig, en það kólnar í kvöld. Á morgun verður rólegra veður, suðvestlæg eða breytileg átt 5 til 13 metrar á sekúndu og skúrir.

Sums staðar norðanlands má búast við éljum eða slydduéljum. Svalt verður miðað við árstíma en hitinn verður á bilinu 1 til 8 stig, hlýjast syðst.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV