Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gullinn skjöldur lagður gegn ofurvaldi konungs Taílands

20.09.2020 - 06:56
Erlent · Asía · Bangkok · einveldi · Kongungsvald · mótmæli · Taíland
epaselect epa08682992 People touch a plaque declaring 'This country belongs to the people' during a pro-democracy rally in Bangkok, Thailand, 20 September 2020. Tens of thousands of anti-government protesters led by students took part in a mass rally against the royalist elite and the military-backed government calling for political and monarchy reforms.  EPA-EFE/DIEGO AZUBEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þungi í ákalli taílenskra ungmenna eftir lýðræðisumbótum hefur aukist undanfarna mánuði. Tugir þúsunda söfnuðust saman í höfuðborginni Bangkok um helgina þrátt fyrir varnaðarorð forsætisráðherra landsins um að illa gæti farið fyrir mótmælendum ef þeir gengju of langt.

Skömmu eftir sólarupprás í morgun steyptu mótmælendur gullinn skjöld í gangstétt nærri Konungshöllinni í miðborg Bangkok. Á plattann er letrað að almenningur í Taílandi geri vilja sinn ljósan, að landið tilheyri fólkinu en sé ekki eign svikuls einvaldskonungs.

Talskona ríkisstjórnarinnar segir að lögregla myndi ekki beita mótmælendur valdi en það væri á valdsviði hennar að ákveða hvort ákært yrði fyrir ólöglegt orðbragð. Taílenskum lögum samkvæmt er óheimilt að niðra konungsfjölskylduna með orðum eða athöfnum.

Að sögn varalögreglustjóra borgarinnar er það borgaryfirvalda að ákveða hvort skjöldurinn verði fjarlægður en hann er nákvæm eftirmynd annars sem lagður var til minningar um afnám einveldis í landinu árið 1932.

Hann var fjarlægður árið 2017 þegar Vajiralongkorn núverandi konungur komst til valda.