Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grímuskylda í framhalds- og háskólum höfuðborgarsvæðis

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Nú ber nemendum, kennurum og öðru starfsfólki framhalds- og háskóla á höfuðborgarsvæðinu skylda til að nota grímur í skólabyggingum og í öllu skólastarfi.

Þetta kemur fram í uppfærðum leiðbeiningum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir bæði framhalds- og háskóla. Þær byggja á tilmælum sóttvarnarlæknis um grímunotkun í staðnámi í þessum skólum.

Með því er tryggt að staðnám verði að sem mestu óbreytt frá því sem verið hefur. Í tilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðneytinu kemur fram að mat á grímunotkun utan höfuðborgarsvæðisins verði háð aðstæðum hverju sinni, byggt á aðstöðu hvers skóla og hve útbreidd kórónuveirusmit eru á hverju svæði.

Í leiðbeiningum til skólanna er meðal annars lögð rík áhersla á að grímur séu rétt notaðar, fjarlægðartakmarkanir virtar, að hreinlætis sé gætt í hvívetna og að utanaðkomandi gestagangur sé takmarkaður eins og verða megi.

Ráðuneytið hefur ásamt heilbrigðisráðuneytinu tryggt framhaldsskólum aðgang að 20 til 25 þúsund grímum. Landspítalinn sendir grímurnar í skólana í fyrramálið.