Gera ráð fyrir að nota 500 grímur á dag

20.09.2020 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fjarnám eykst í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu á morgun. Misjafnt er þó á milli skóla hversu mikið nám flyst yfir í fjarnám. Sumt nám verður að stunda á staðnum. Skólastjórinn í Borgarholtsskóla gerir ráð fyrir að þar þurfi nemendur, kennarar og annað starfsfólk að nota 500 grímur á dag.

„Á nemendur hefur þetta þau áhrif að þeir verða óöruggir. Fyrst og fremst hefur þetta áhrif þetta uppeldislega hlutverk skóla og félagslíf nemenda. Við náum ekki að vinna með það þó svo að við náum að vinna með námið sjálft,“ sagði Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla og varaformaður Skólameistarafélags Íslands, aðspurður um áhrif aukins fjarnáms.

Allir nemendur í verklegu námi í Borgarholtsskóla mæta áfram í skólann. „Hér í Borgarholtsskóla reiknum við með að það verði notaðar fimm hundruð grímur á dag þannig að þetta er talsvert,“ sagði Ársæll. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra greindi stjórnendum framhaldsskóla frá því í dag að ríkið myndi greiða kostnað við grímunotkun starfsfólks og nemenda vegna COVID-19 faraldursins.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi nemendum og starfsfólki bréf síðdegis. Þar sagði hann að grímum verði dreift í byggingum skólans í byrjun vikunnar eða eins fljótt og unnt er. Hann hvatti um leið kennara til að auka enn rafræna kennslu vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi