Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fleiri starfsmenn velferðarsviðs með COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Tólf starfsmenn á velferðarsviði Reykjavíkurborgar hafa greinst með COVID-19. Sjö af þeim starfa á þremur íbúðakjörnum í Reykjavík og greint var frá því í gær að einn íbúi hefði greinst með smit. 55 eru í sóttkví vegna smitanna, þar af 49 starfsmenn og 6 íbúar á íbúðakjörnum. Þetta segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við fréttastofu.

Í gær greindi fréttastofa frá því að tíu starfsmenn velferðarsviðs væru smitaðir en síðan þá hafa greinst tveir starfsmenn og einn íbúi.

Regína segir að tveir starfsmenn hjá Barnavernd Reykjavíkur hafi greinst smitaðir og að 15 starfsmenn þar séu nú í sóttkví. Þrír þeirra smituðu starfa í stuðningsþjónustu eða annarri starfsemi á vegum velferðarsviðs og hafa ekki verið í neinum tengslum við notendur þjónustunnar eða aðra starfsmenn.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV