Einn með COVID á Reykjalundi og 18 í sóttkví

20.09.2020 - 14:04
Drónamynd af Reykjalundi
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV/Ingvar Haukur Guðmundsson
Einstaklingur á Reykjalundi hefur greinst með COVID-19 veikina og er það í fyrsta sinn sem það gerist. Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar, segir að þegar í stað hafi markvissir ferlar um sóttvarnir og varnir gegn smitleiðum verið settir í gang.

„Í öryggisskyni var hluta af starfsemi Reykjalundar lokað tímabundið. 18 starfsmenn fóru í sóttkví. Jafnframt var haft samband við þá skjólstæðinga sem verið höfðu návist viðkomandi einstaklings. Fóru þeir ýmist í sóttkví og sýnatöku eða gerðu tímabundið hlé á sinni meðferð á Reykjalundi,“ segir í yfirlýsingu Péturs Magnússonar. „Vegna þessa hefur framkvæmdastjórn Reykjalundar ákveðið að gera meðferðarhlé hjá öllum þjónustuþegum dag- og göngudeilda Reykjalundar vikuna 21.-25. september. Um 100-120 manns heimsækja Reykjalund daglega í þessum tilgangi. Þetta þýðir að gert er hlé á meðferðum allra átta meðferðarteyma þessa viku. Starfsemi heilsuræktar Reykjalundar verður jafnframt lokuð umræddan tíma enda hluti starfsmanna í sóttkví. Starfsemi sólarhringsdeildarinnar á Miðgarði sem og starfsemi Hleinar halda áfram, en búast má við skerðingu á þjónustu þar. Verið er að reyna ná í skjólstæðinga Reykjalundar eftir bestu getu og tilkynna þeim þetta.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi