Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bandaríkin ætla að endurvekja viðskiptaþvinganir á Íran

epa08301773 US Secretary of State Mike Pompeo speaks to the media about the coronavirus COVID-19 pandemic, which he referred to as the 'Wuhan virus', at the State Department in Washington, DC, USA, 17 March 2020. Efforts to contain the pandemic have caused travel disruptions, sporting event cancellations, runs on cleaning supplies and food and other inconveniences.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn hyggst leggja umdeildar viðskiptaþvinganir að nýju á Íran. Þessu lýsti Mike Pompeo utanríkisráðherra einhliða yfir í gær.

Þvingunaraðgerðirnar tóku gildi á miðnætti að íslenskum tíma. Pompeo segir að Bandaríkjastjórn muni þvinga ríki Sameinuðu þjóðanna til stuðnings við þær.

Í ágúst síðastliðnum kom Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í veg fyrir að Bandaríkjastjórn gæti beitt Írani þvingunum. Þær hefðu byggt á alþjóðlegum samþykktum frá því fyrir undirritun kjarnorkusáttmála stórveldanna við Íran árið 2015.

Þá og nú litu Bandaríkin þannig á að þau væru enn aðili að þeim sáttmála og sökuðu Íransstjórnum að hafa brotið gegn honum. Þá fullyrti Pompeo að Þjóðverjar, Frakkar og Bretar stæðu með Ajatollunum í Íran, og boðaði þá þegar þær aðgerðir sem nú eru hafnar. 

Nú hótar Bandaríkjastjórn þeim ríkjum sem ekki fallast á aðgerðir þeirra að þeim verði meinaður aðgangur að mörkuðum og fjármálakerfi Bandaríkjanna. Mike Pompeo heitir því að nánari útfærsla á aðgerðum gegn þeim verði kynnt á næstu dögum.

Búist er við að Trump forseti geri það í ávarpi sínu frammi fyrir Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna næstkomandi þriðjudag.

Í sameiginlegri yfirlýsingu Frakka, Breta og Þjóðverja til öryggisráðsins segir að ákvörðun Bandaríkjamanna standist enga skoðun og hafi engin lagaleg áhrif. Javad Zarif utanríkisráðherra Írans segir Bandaríkjamenn sjálfa gera sér grein fyrir veikri stöðu sinni í málinu.