Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vilja geta sektað fólk á hættusvæðum

19.09.2020 - 07:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögregla fær heimild til að sekta fólk sem dvelur í húsum á snjóflóðahættusvæðum sem hafa verið keypt eða tekin eignarnámi, ef drög að frumvarpi um snjóflóðavarnir ná fram að ganga. Þetta á að hjálpa til við rýmingu svæða þegar hætta er á snjóflóðum og sporna gegn því að fólk dvelji í húsum á hættusvæði.

 

Frumvarpsdrögin liggja frammi til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Í þeim er að finna ýmis ákvæði um nýtingu hættusvæða og eftirlit með þeim, skiptingu hættusvæða í áhættuflokka og endurskoðun hættumats.

Einnig er lögð til sú nýjung að lögregla geti sektað fólk sem dvelur í húsum á hættusvæði. Þetta á við um hús sem keypt hafa verið upp eða tekin eignarnámi, svo sem ef fólk dvelur í húsum á hættusvæði utan þess tíma sem er heimilt að dvelja þar. Á það hefur verið bent að fólk hefur stundum dvalið í húsum á hættusvæðum þegar hætta var á ofanflóðum. Í frumvarpinu er vísað til ábendinga sveitarfélaga og lögreglu um að stundum hafi gengið erfiðlega að rýma hús þegar ákvörðun um rýmingu hafði verið tekin. Við slíkar aðstæður sé viðbúið að allir á svæðinu séu í hættu; íbúar, lögregla og björgunarsveitarmenn. 
 

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV