Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þriðja bylgjan hafin - eins og óheftur faraldur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins er hafin, segir Thor Aspelund prófessor í líftölfræði og forvarsmaður Covid spálíkans Háskóla Íslands. Hann segir faraldinn núna svipaðan og í byrjun mars en að fjöldi smita næstu daga skeri úr um hver þróunin verður. 

Spálíkan Háskóla Íslands var ekki uppfært á hefðbundinn hátt síðasta fimmtudag vegna þess að nýgreindum smitum hafði fjölgað snögglega. Thor Aspelund segir að önnur bylgja faraldursins sem byrjaði í lok júlí sé að fjara út: 

„Nú hefur ný bylgja tekið við.“

Stökkið frá 21 í fyrradag upp í 75 í gær er mikið en sást líka í fyrstu bylgjunni í mars. 
 
„Það er bara allt í einu einhver hraður vöxtur í gangi sem að vísar til að faraldurinn hafi náð sér af stað svona eins og að vera óheftur faraldur, bara eins og í byrjun mars.“

Hann segist vona að úr því að skimað var svo mikið í gær að kannski hafi náðst hraðar að greina smitin miðað við taktinn sem hafi verið í vor. 

„Þá hefðu kannski þessi 75 dreifst á aðeins fleiri daga. Þannig að við þurfum aðeins að bíða til að sjá hvort að þetta sé vísbending um að það sé áfram svona vöxtur. Það tekur nokkra daga að sjá það. “