„Það er ekkert að því að leita sér hjálpar“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það er ekkert að því að leita sér hjálpar“

19.09.2020 - 08:55

Höfundar

Geðhvörf geta verið stórhættuleg og „það getur bjargað mannslífi að hringja þegar manni líður illa og er farinn að hugsa hugsanir sem maður kannast ekki við,“ segir Andri Snær Magnason rithöfundur og kvikmyndagerðamaður. Heimildarmyndin Þriðji póllinn eftir Andra Snæ og Anni Ólafsdóttur gerist í Nepal og fjallar um sjúkdóminn. Hún verður frumsýnd 24. september og er opnunarmynd RIFF í ár.

Fílar, tígrisdýr og konunglegir fjallgarðar spila stórt hlutverk í heimildarmyndinni Þriðja pólnum sem gerist náttúruparadís í frumskóginum í Nepal. Kvikmyndagerðafólkið sótti Önnu Töru Edwards heim. Hún er hálfbresk og hálfíslensk og er alin upp á Íslandi og í Nepal og búsett þar. Anna Tara glímir líkt og móðir hennar heitin við geðhvörf en umræðan um andlega sjúkdóma er skammt á veg komin á hennar heimaslóðum. Hún fann lengi fyrir skömm og þagði að mestu yfir veikindum sínum þar til hún varð innblásin af Högna Egilssyni tónlistarmanni þegar hann fyrir nokkrum árum opnaði sig um eigin glímu við sama sjúkdóm. Hún skoraði skömmina á hólm og ákvað til að aðstoða samlanda sína að efna til geðheilsuvakningar í Nepal og opna sjálfsvígslínu sem var nýjung þar. Anna Tara hafði samband við Högna og fékk hann til að heimsækja sig til Nepal og spila nokkur lög á viðburðinum. Högni hringdi í Andra Snæ og Anni og fékk þau með sér í ferðalagið til að mynda viðburðinn og tónleikana. „Högni hringir í okkur og segir: Hvað eruð þið að gera næstu helgi?“ rifjar Andri Snær upp í Mannlega þættinum á Rás 1. „Ég sagði bara að ég hefði ekkert planað og þá bætti hann við: Viltu koma til Nepal?“ Fyrirvarinn var stuttur en Andri kveðst ekki hika þegar maður eins og Högni á í hlut. „Þegar maður með svona útlit segir: Fylgdu mér, þá kastar maður öllu frá sér,“ segir Andri kíminn. Það þurfti heldur ekki að sannfæra Anni. „Mér fannst þetta strax spennandi,“ segir hún. Og til Nepal hélt föruneytið.

Til stóð að mynda tónleika Högna en þegar út var komið áttaði kvikmyndateymið sig fljótt á því að þau væru að vinna með eitthvað miklu stærra en eina tónleikaupptöku. Því var allt skoðað og myndað, náttúrufegurðin, ferðalögin og samtölin við varðeldinn. „Samskiptin þeirra Önnu og Högna, fílarnir hennar Önnu Töru, þetta var bara eins og að stíga inn í einhvern óraunveruleika,“ segir Andri Snær. „Næstum eins og að vera boðið í maníu því allt var svo táknrænt og litirnir sterkir. Umhverfið hjálpar líka til við að mynda fallega spennu í verkinu,“ segir hann. Og áhorfendur kynnast í myndinni tveimur ólíkum manneskjum sem eru að kynnast en glíma bæði við geðhvörf á svipaðan, en samt á sama tíma ólíkan hátt, við gjörólíkar aðstæður. Anna Tara er alin upp í Nepal þar sem foreldrar hennar ráku ferðaþjónustu með fíla og hún fékk til dæmis fíl í afmælisgjöf sem fylgir henni alla hans ævi. Hún er því mjög kunnug staðháttum í Nepal, og Högni, sem þó aldrei hefur áður verið á þessum slóðum, passar fullkomlega inn í sviðsmyndina og sómir sér vel með blaktandi skikkju við snarkandi eld eða í hvítum jakkafötum með hvítan gítar aftan á uxakerru sem verið er að draga yfir fljót.

Mynd með færslu
 Mynd: Annie Ólafsdóttir - Þriðji Póllinn
Högni og Anna Tara sigldu yfir fljótið og ræddu sín hugðarefni

Og í þessum súrrealísku aðstæðum opna Högni og Anna Tara sig um reynslu sína þó stundum sé hún svo viðkvæm þau treysta sér ekki til að rifja í smáatriðum upp minningar sem eru of sárar. Þau hafa bæði upplifað dýpstu sálarmyrkur og náð hæstu hæðum í maníunni. „Við ákváðum að leyfa þeim að tala sín á milli á sínum forsendum og það varð svo áhugavert,“ segir Anni. „Þau eru furðulega lík en samt svo ólík og þessar miklu tilfiningar endurspeglast í myndinni svo hún verður tímalaus,“ segir Andri Snær.

En margt kemur upp úr dúrnum. Anna Tara segir til dæmis frá því þegar hún fer fyrst í maníu en þá er hún stödd alein í Nýju Delí og týnist þar. Hún finnst nánast fyrir tilviljun ráfandi um í mjög hættulegu ástandi. Önnu Töru finnst bersýnilega erfitt að rifja þetta upp og það er allt í lagi. „Það er ekki allt fengið með því að segja allt,“ segir Andri Snær. „Það eru líka sögur sem Högni vildi ekki segja og þetta er ekki endilega spurning um að kjamsa á slíkum hlutum því það gerir myndina ekki sterkari.“

Mynd með færslu
 Mynd: Anní Ólafsdóttir - Þriðji Póllinn
Högni passaði fullkomnlega inn í umhverfið í hvítum jakkafötum með gítar í hönd

Í Nepal týndi hópurinn sér um stund í litagleðinni og dýrðinni en Högni nær þeim niður á jörðina í tilfinningaþrungnu atriði. „Þetta var gaman og mikið ævintýri með fílum og tígrisdýrum en svo kom áminning sem Högni fékk skilaboð að heiman um sjálfsvíg í nærumhverfi hans,“ rifjar Andri upp. „Þá vorum við minnt á að þetta er grafalvarlegt mál. Þetta er enginn leikur og maníur eru ekki fyndið flipp. Þetta er stórhættulegt.“

Fólk sem glímir við geðhvörf en hefur aldrei fengið greiningu hikar gjarnan við að leita sér hjálpar, að sögn Andra Snæs. Það finni fyrir skömm og ótta. „Hugmyndin að myndinni er að gera þetta líka mannlegt og koma því til skila að það er ekkert að því að leita sér hjálpar. Það getur bjargað mannslífi að hringja því þér líður illa og ert farinn að hugsa hugsanir sem þú kannast ekki við,“ segir hann. „Það er manneskja sem getur leitt þig í gegnum þessar hugsanir og út úr þeim aftur. Það eru til ótal dæmi um það.“ Bæði Högni og Anna Tara ræða til dæmis opinskátt um sjálfsvígshugsanir sem þau hafa þurft að glíma við og hve miklu máli það skiptir að fá þessa aðstoð þegar þær leita á. „Sjálfsvíg er svo erfitt umræðuefni þegar það má ekki tala um það,“ segir Andri Snær. Umræðan er sem betur fer sífellt að opnast hér á Íslandi um þessi mál en í Nepal er hún skammt á veg komin. Þar er sjálfsvígstíðnin mjög há og öfugt við Vesturlönd er hún hæst meðal kvenna.

Kvikmyndin er sem fyrr segir frumsýnd 24. september og fer fljótlega í almennar sýningar í kvikmyndahúsum um allt land.

Rætt var við Andra Snæ og Anni í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

RIFF verður á netinu: „Fólk þarf afþreyingu“

Tónlist

Kvikmynd um geðhvörf með fílum og söngvum

Kvikmyndir

Þriðji póllinn er opnunarmynd RIFF

Kvikmyndir

Fannst óhugsandi að lifa að slökkt yrði á heiminum