Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sveitarstjórnarkosningar á Austurlandi í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Sveitarstjórnar- og heimastjórnarkosningar fara fram í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar í dag. Fimm flokkar keppast um sæti; B-listi Framsóknarflokksins, D-listi Sjálfstæðisflokksins, L-listi Austurlistans, M-listi Miðflokksins og V-listi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

 

Kjörstaðirnir eru fjórir:

  • Borgarfjörður eystri: Hreppstofan Borgarfirði: Frá kl. 09.00 til kl. 17.00
  • Djúpivogur: Tryggvabúð Djúpavogi: Frá kl. 10.00 til kl. 18.00 
  • Fljótsdalshérað: Menntaskólinn á Egilsstöðum: Frá kl. 09.00 til kl. 22.00
  • Seyðisfjörður: Íþróttamiðstöðin á Seyðisfirði: Frá kl. 10.00 til kl. 22.00

Auk sveitarstjórnarkosninga fara fram kosningar í heimastjórnir. Heimastjórnir verða fastanefndir sem starfa innan hvers hrepps í umboði sveitarstjórnar. Í hverri heimastjórn verða þrír fulltrúar og markmið þeirra er að tryggja aðkomu heimamanna á hverjum stað að ákvörðunum. Þær geta ályktað um mál sem snúa að byggðinni og komið málum á dagskrá sveitarstjórnar. Allir íbúar á hverju svæði eru í framboði til heimastjórnar þess, en einhverjir hafa gefið kost á sér sérstaklega. Nánari upplýsingar um kosningar í heimastjórnir og frambjóðendur má nálgast hér. 

Búist er við að úrslit kosninganna liggi fyrir fljótlega eftir miðnætti í kvöld.