„Sú bjartsýna spá mín hefur nú ekki ræst“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Erfitt er að segja til um hvort fjölgun smita í gær sé vísbending um að smitum haldi áfram að fjölga sífellt hraðar, eða hvort talan í gær sé hápunktur. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann sagði óljóst hversu víða veiran hefur dreifst um samfélagið. Þórólfur tekur ákvörðun um næstu sóttvarnaaðgerðir á næsta sólarhringnum.

„Fjöldinn síðustu þrjá til fjóra daga hefur verið nánast í veldisvexti,“ sagði Þórólfur en tók fram að aukinn fjöldi sýna skýrði fjölgunina að einhverju leyti. 75 greindust með COVID-19 í gær og 57 þeirra voru með einkenni við sýnatöku.

Var bjartsýnn í gær

Þórólfur kvaðst hafa verið nokkuð bjartsýnn í gær um að nú tækist að ná utan um faraldurinn. „Sú bjartsýna spá mín hefur nú ekki ræst,“ sagði hann.

Hann sagði ástæðurnar fyrir útbreiðslu faraldursins nokkuð margar en að opinberar tilslakanir hefðu væntanlega leitt til þess að veiran dreifðist hraðar milli fólks. Hann varaði fólk við því að leita að sökudólgi. „Þetta er það sem aðrir eru að sjá núna. Þetta er það sem við erum að sjá núna,“ sagði Þórólfur.

Smitin næstum öll á höfuðborgarsvæðinu – mörg tengjast skemmtistöðum

Allir nema þrír þeirra sem greindust síðasta sólarhring voru af höfuðborgarsvæðinu. Einn var af Vesturlandi og tveir af Norðurlandi.

Meirihluti þeirra sem greindist í gær höfðu verið á skemmtistöðum sem nefndir hafa verið undanfarna daga.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði í viðtali við fréttastofu að loknum upplýsingafundinum að í gærkvöldi hefði smitrakningarteymið náð yfir um það bil 50 þeirra smita sem greindust í gær og um helming þeirra mátti rekja til skemmtistaða, Irishman Pub og fleiri staða.  

Flestir þeir sem greinst hafa með COVID-19 eru ungir en smit gæti þó borist til eldra fólks sem á í hættu að glíma við alvarlegri veikindi.

Næstu sóttvarnaaðgerðir munu fyrst og fremst snúa að höfuðborgarsvæðinu og nú er til skoðunar hvort ástæða sé til að færa höfuðborgarsvæðið á neyðarstig almannavarna vegna útbreiðslu faraldursins.

Því fyrr sem aðgerðir verða hertar, því betra

Þórólfur sagði að það gæti orðið erfitt að ná veirunni úr samfélaginu og að óljóst væri hvort sátt næðist um jafn harðar aðgerðir nú og síðasta vetur. „Við þurfum kannski á einhverjum tímapunkti að grípa til harðari aðgerða eins og við gerðum í vetur, það er rétt. Nákvæmlega hvenær sú stund rennur upp er hins vegar erfiðara að segja til um. Því fyrr sem það er gert. Því betra,“ sagði hann.

Smitrakningarteymið stækkar

Víðir Reynisson greindi frá því á fundinum að fjölgað hefði mjög í smitrakningarteyminu. Í dag þyrfti teymið að hafa samband við um það bil 500 manns og að vinnan gengi vel.

Rætt hefur verið að taka upp kerfi litaviðvörunarkerfi vegna faraldursins. „Miðað við stöðuna myndum við telja að við værum á rauða litnum fyrir höfuðborgarsvæðinu, sem er efsta stig þessa viðvaranakerfis,“ sagði Víðir. Á rauðu stigi væri viðbúið að gripið væri til hertra aðgerða með litlum fyrirvara.

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Upplýsingafundurinn í heild sinni.
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi