Slydda og jafnvel snjókoma í veðurkortunum

19.09.2020 - 07:10
Mynd með færslu
Við Álkuskála á Haukagilsheiði í Austur-Húnavatnssýslu nú í morgunsárið Mynd: Aðsend mynd
Í dag segir Veðurstofa Íslands vera útlit fyrir allhvassa eða hvassa suðvestanátt með skúrum, en þurrt verði í veðri á austanverðu landinu.

Hiti verður á bilinu 7 til 14 stig, hlýjast á Austurlandi. Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu er lægð í myndun við Nýfundnaland sem mun ráða öllu í veðrinu á Íslandi á morgun en gert er ráð fyrir að lægðin keyri yfir landið.

Þá megi búast við stífri sunnanátt með talsverðri rigningu. Lægðin verður komin norðaustur yfir land annað kvöld, og dregur þá kaldari norðanátt yfir Vestfirði og Norðurland. Því er búist við að úrkoman þar verði slyddukennd á láglendi og snjókoma til fjalla.

Veðurfræðingur segir óvenju mikla óvissu varðandi dýpt og braut sunnudagslægðarinnar og hvetur þau sem eiga mikið undir veðri að fylgjast með uppfærðum spám. Nýjasta spáin er yfirleitt er sú sem líklegust er til að ganga eftir.

Fyrripart næstu viku er síðan gert ráð fyrir norðlægri eða breytilegri átt með úrkomu og fremur köldu veðri miðað við árstíma.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi