Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Samningur um flug til Boston verður framlengdur

19.09.2020 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd:  - Pixabay.com
Samgönguráðherra segir að samningur ríkisins við Icelandair um að sinna lágmarksflugi til Boston verði endurnýjaður, en sá fyrri rann út í dag. Ráðherra býst við að nýr samningur gildi líklega næstu mánuði.

Íslenska ríkið samdi seint í mars við Icelandair um að halda uppi lágmarksflugi til þriggja staða, Boston, London og Stokkhólms og var sá samningur endurnýjaður. Undanfarið hefur Boston verið eini áfangastaðurinn samkvæmt samningnum. Sá samningur rann út í dag, en til stendur að framlengja hann að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra.

„Já, það stendur til og við höfum verið að undirbúa það í því skyni að viðhalda lágmarks flugsamgöngum til og frá landinu til svæða þar sem er  í raun og veru ekkert flug öðruvísi.“
Hversu lengi mun sá samningur gilda?
„VIð erum með það til skoðunar en hann gæti sjálfsagt orðið næstu mánuðina, miðað við þær aðstæður sem eru uppi í dag.“

Forstjóri Icelandair segir það undir stjórnvöldum komið hvort samið verði um flug til fleiri staða en Boston.

„Það veltur á stjórnvöldum. Þetta hefur verið Boston undanfarið til þess að halda tengingunni milli Íslands og Bandaríkjanna. Það eru fleiri flugfélög og fljúga til Evrópu en við þess vegna er samningurinn um Boston og hefur verið síðustu vikur,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.

Samkvæmt upphaflega samningnum skuldbatt ríkið sig til að greiða að hámarki hundrað milljónir króna. Samgönguráðherra sagðist ekki vera með nákvæma tölu yfir kostnaðinn , en segir að hann hafi verið óverulegur og mun lægri en upphaflega var áætlað. Hann segir fjármuni eyrnamerkta nýjum samningi.

Já, við höfum gengið frá því að það sé hægt að ganga á varasjóð í málaflokknum til þess.“

Icelandair hefur fellt niður fjölda ferða undanfarið vegna ástandsins.

„Þetta er myndin af ástandinu og eftirspurninni sem er til staðar núna á mörkuðunum. Við erum að bregðast við lítilli eftirspurn með því að fækka flugum, því miður,“ segir Bogi Nils Bogason.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV