Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nafngreina staði hér eftir ef þörf krefur

19.09.2020 - 20:06
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Sóttvarnayfirvöld ætla hér eftir að nafngreina þá staði sem tengjast COVID-19 smitum ef yfirvöld þurfa að ná til gesta þeirra og hafa ekki til þess önnur ráð. Þetta kemur fram í svari Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá Ríkislögreglustjóra, við fyrirspurn fréttastofu.

Það vakti athygli á upplýsingafundi almannavarna í dag að ekki fengust upplýsingar um það hvaða staðir tengdust smitum sem greinst hafa í bylgju síðustu daga. Víðir var þá fyrir svörum og sagði sóttvarnayfirvöld ekki telja sig hafa heimild til að nafngreina staðina og að eigendur staðanna hefðu óskað eindregið eftir því að nöfn þeirra kæmu ekki fram. Sóttvarnayfirvöld hefðu hins vegar ítrekað hvatt eigendur þeirra til að stíga fram og hvetja viðskiptavini sína til að fara í skoðun. Síðdegis í dag birtu stjórnendur Brewdog yfirlýsingu á Facebook síðu sinni um að þar hefðu greinst smit.

„Það er mikið álag á sýnatöku, greiningu og rakningu og úrvinnslu þannig að við munum áfram beita sömu aðferðum og hingað til og hafa gefist vel,“ segir Víðir í svari sínu við fyrirspurn fréttastofu en ítrekar að staðir eða starfsemi verði hér eftir nafngreind ef það þjónar hagsmunum baráttunnar við COVID-19. Meirihluti smita sem greindust í gær voru í fólki sem verið hafði á skemmtistöðum eða börum undanfarna daga. Víðir segir að aðrir staðir hafi svo óljósa tengingu við smit að það þjóni ekki hagsmunum verkefnisins að auglýsa eftir gestum þeirra í sýnatöku enda myndi það bara auka álagið án tilgangs.

Mega upplýsa um nöfn staða

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, sagði í viðtali við RÚV fyrr í dag að ekkert í persónuverndarlöggjöf komi í veg fyrir að upplýst verði um staðina sem tengjast nýlegum COVID-19 smitum. Helga sagði að almannahagsmunir og heilsa trompi viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Sérfræðingar í upplýsingarétti sem fréttastofa ræddi við sögðu það sama.

Uppfært 22:07 Almannavarnir sendu frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í kvöld. „Tveir veitingastaðir í miðbæ Reykjavíkur hafa tilkynnt að viðskiptavinir sem sóttu staði þeirra föstudagskvöldið 11. september, á milli klukkan 16:00 - 23:00, hafi verið útsettir fyrir smiti Covid-19 veirunnar. Aðrir veitingastaðir sem hafa verið til skoðunar hjá smitrakningarteyminu hafa mjög óljósa tengingu við tilfelli að ekki þykir ástæða til þess að rekja frekar útsetta einstaklinga í tengslum við þá. Í hvert og eitt skipti, þar sem mörg smit koma upp í tengslum við einn stað, þarf að meta hvort það þjóni hagsmunum í baráttunni við veiruna að kalla stóran hóp viðskiptavina í sýnatöku, þá sérstaklega þegar álagið í smitrakningu er jafn mikið og það er þessa stundina. Eigendur veitinga- og skemmtistaða hafa unnið náið með smitrakningarteyminu. Eftirleiðis munu almannavarnadeild og sóttvarnalæknir greina frá nöfnum staða ef sýnt þykir að það muni aðstoða við að kveða niður dreifingu smita hjá einstaklingum sem hafa verið útsettir fyrir Covid-19.“

Staðirnir hverra forsvarsmenn hafa stigið fram eru Brewdog og Irishman Pub.