Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Miklar öldur rifu upp torfur og lentu á hjólreiðamanni

19.09.2020 - 20:50
Mynd: Jóhannes Sólmundarson / Jóhannes Sólmundarson
Mikill sjávargangur hefur verið á Eiðsgranda í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld. Há sjávarstaða og sterkir straumar hafa valdið því að öldur hafa gengið á land. Ein aldan lenti á hjólreiðamanni sem átti þar leið um, eins og sjá má á myndbandi sem fylgir fréttinni.
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Sigurjónsson - RÚV

„Það er bara gríðarlegur sjávarágangur hér upp á landi, til móts við Boðagranda og Grandaveginn. Það teppir göngustíga og hjólastíginn nýja og hefur borist dálítið út á götu. Það er komin grafa hingað til að hreinsa götuna,“ segir Þorgrímur Hallgrímsson, rekstrarstjóri á Hverfastöðinni Fiskislóð. Hann segir of snemmt að fullyrða mikið um skemmdir af völdum sjávargangsins. „Við sjáum það nú ekki í myrkrinu eins og er. Það er viðbúið að það séu einhverjar skemmdir. Það kemur í ljós í fyrramálið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Sólmundarson

Samhliða því að nýr hjólastígur var lagður var tyrft þar í kring. Grasið er nú að stórum hluta komið út á götu og truflaði þar för ökumanna áður en grafan kom og hreinsaði til. 

Veðrið er nú að ganga niður en þar með er ekki öll sagan sögð. „Það lítur ekki vel út í fyrramálið. Það er mjög há sjávarstaða, hátt í sjóinn og vindur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Sólmundarson
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV