
Mike Pompeo segir Maduro að hypja sig
Pompeo sem er á stuttu opinberu ferðalagi til fjögurra ríkja Suður Ameríku notaði tækifærið til að þrýsta á Maduro að segja af sér. Pompeo gerði þrengingar þeirra fimm milljóna sem hafa þurft að flýja efnahagsástandið í Venesúela undir stjórn Maduros að umfjöllunarefni.
Utanríkisráðherrann bandaríski heimsótti flóttamannabúðir við bæinn Boa Vista í Brasilíu og hafði á orði að allir sem hann hefði rætt við vildu snúa aftur heim. Talið er að um 260 þúsund Venesúelabúa hafist við í búðunum.
„Maduro hefur lagt eigið land í rúst,” segir Pompeo, kallaði hann hamfarir í mannslíki og eiturlyfjasala. Þar vísaði hann til ásakana dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna á hendur forsetanum og náinna félaga hans, fyrr á þessu ári. „Maduro á að hypja sig úr embætti,“ segir Pompeo.
Gríðarlegur efnahagssamdráttur hefur orðið í Venesúela á sjö ára valdatíð Maduros. Honum hefur tekist að hrinda öllum valdaránstilraunum og situr enn sem fastast.