Líklegt að Brexit-frumvarp taki breytingum

19.09.2020 - 08:05
epa08673469 A handout photo made available by the UK Parliament shows Britain's Prime Minister Boris Johnson attending the Prime Ministers Questions in the House of Commons in London, Britain, 16 September 2020. Infections of coronavirus are rising, putting pressure on the government's testing system in the UK.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - JESSICA TAYLOR / UK PARLIAMENT
Brexit-sagan endalausa tók á sig nýja mynd í síðustu viku þegar Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands lagði fram nýtt frumvarp, sem brýtur í bága við alþjóðalög og útgöngusamning Breta við Evrópusambandið. Margir hafa brugðist ókvæða við, þar á meðal Evrópusambandið, sem er einmitt í viðræðum við Bretland um fríverslunarsamning. Það er óhætt að segja að þetta frumvarp hafi ekki liðkað fyrir þeim viðræðum.

Það virðist nánast heil eilífið síðan íhaldsflokkurinn undir forystu Boris Johnson vann stórsigur í bresku þingkosningunum sem voru haldnar 13. desember, fyrir 9 mánuðum. Í sigurræðunni sagði hann að tekist hefði að komast upp úr hjólförunum, upp úr sjálfheldunni, að brjóta vegartálmana. 

Þar var hann með slagorð sem virðist hafa virkað svona líka prýðilega. „Get Brexit done.“ Það var allavega einfalt að segja það - koma Bretlandi út úr Evrópusambandinu, klára ferlið sem hófst 2016 þegar Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa Evrópusambandið. Og breska þjóðin hlustaði greinilega jafn vel og stuðningsmennirnir sem þarna heyrðist í því Íhaldsflokkurinn fékk 40 sæta meirihluta á þingi. Nú - níu mánuðum seinna - er málið komið í sjálfheldu, sem við komum betur inn á síðar.

Boris Johnson sagði jafnframt í þessari sömu ræðu að mörgum árum hefði verið sóað í umræðu um þetta mál.  „Við höfum meira að segja verið að rífast um rifrildi og tóninn í riflrildunum. Ég ætla að stoppa þessa vitleysu. Bretar verða komnir út úr Evrópusambandinu 31. janúar. Einfalt mál. Allt breska konungsríkið.“ 

Nú - níu mánuðum seinna - er rifrildinu ekki lokið. Bretland fór vissulega formlega út úr Evrópusambandinu 31. janúar. En málinu er alls ekki lokið. Útgöngusamningurinn sem var afgreiddur á breska þinginu skömmu eftir kosningarnar - við förum nánar yfir hann á eftir - gaf aðlögunartíma til loka þessa árs og Bretar eru bundnir af reglum sambandsins þangað til. Þessi aðlögunartími átti að vera tvö ár en rifrildið um útgönguna sem Johnson talaði um stytti þennan aðlögunartíma í ellefu mánuði. Stjórnvöld í London hafa þverneitað að framlengja þann tíma. 

Á meðan átti að semja um viðskiptasamband Breta og Evrópusambandsins eftir að aðlögunartímabilinu lyki, nokkuð sem margir efuðust um að næðist á aðeins ellefu mánuðum. Og þær efasemdir virðast á rökum reistar því þrátt fyrir nokkrar viðræðulotur hillir ekki enn undir samning.

British Prime Minister Boris Johnson, left, and European Commission President Jean-Claude Juncker gesture during a press point at EU headquarters in Brussels, Thursday, Oct. 17, 2019. Britain and the European Union reached a new tentative Brexit deal on Thursday, hoping to finally escape the acrimony, divisions and frustration of their three-year divorce battle. (AP Photo/Francisco Seco)
Boris Johnson og Jean-Claude Juncker kynna nýja Brexit-samninginn. Mynd: AP
Boris Johnson ásamt Jean-Claude Juncker, þáverandi forseta framkvæmdastjórnar ESB eftir að útgöngusamningur náðist.

En skoðum útgöngusamninginn aðeins nánar. Hann gengur meðal annars út á að tryggja að þeir ríkisborgarar Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins sem þegar búa í Bretlandi, og Bretar sem búa innan svæðisins, haldi sínum réttindum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

En það ákvæði sem mest er í umræðunni núna út af nýjustu tíðindum varða Norður-Írland. Það hefur í gegnum allt þetta ferli verið erfiðasta úrlausnarefnið þar sem útgangan þýðir að írska eyjan verður enn tvískiptari en áður - Norður-Írland er jú á leið út út Evrópusambandinu með öðrum löndum Stóra-Bretlands á meðan Írland er enn í Evrópusambandinu. 

Bretar og Evrópusambandið voru sammála um að ekki ætti að koma upp hörðu landamæraeftirliti milli Írlands og Norður-Írlands því slíkt gæti orðið til þess að átök sem voru mjög hörð þar á 8. og 9. áratug síðustu aldar blossuðu upp aftur. Friðarsamningur frá 1998 sem hefur verið kenndur við föstudaginn langa gekk meðal annars út á að afnema allt slíkt eftirlit.

Upphaflega var stefnt að því að Bretland yrði hreinlega áfram hluti af viðskiptakerfi Evrópusamandsins, en því höfnuðu útgöngusinnar alfarið. Lendingin var að Norður-Írland yrði áfram hluti af innri markaði Evrópusambandsins og ekkert tollaeftirlit færi fram á landamærum Írlands og Norður-Írlands. Hins vegar þyrfti slíkt eftirlit milli Norður-Írlands og Bretlandseyja. Þá þurfa Bretar að fylgja Evrópusambandsreglum um aðstoð til fyrirtækja á Norður-Írlandi. Johnson sagði þegar verið var að gera þennan samning að Bretar yrðu að sætta sig við það ef Evrópusambandið stæði fast á því að hafa tollaeftirlit á írsku eyjunni. 

Þá var sett saman sérstök nefnd með fulltrúum Breta og Evrópusambandsins til að leysa vandamál sem upp kynnu að koma í þessum viðskiptum. Evrópusambandið fengi svo yfirsýn yfir ríkisaðstoð til fyrirtækja á Norður-Írlandi sem gætu haft áhrif á önnur tengd fyrirtæki í Bretlandi. 

Þetta var leið sem Theresa May, forveri Boris Johnson, hafði hafnað þar sem hún vildi ekki að Norður-Írland yrði skilið frá Bretlandi. Johnson tók hana upp aftur til að koma á samningi. Þessi samningur í heild sinni er nú hluti af alþjóðalögum.

Frumvarp sem brýtur alþjóðalög

Nú, níu mánuðum síðar - nánar tiltekið á miðvikudaginn í síðustu viku, lögðu stjórnvöld fram þetta nýja frumvarp, og þar var nánast verið að segja við Evrópusambandið: „Heyrið þið, það eru ákvæði í útgöngusamningnum sem við erum ekki alveg sátt við, svo við ætlum ekki að fara eftir þeim ef við náum ekki viðskiptasamningi. Og þá gerum við bara það sem við viljum.“

Frumvarpið gerir ráð fyrir að við vissar aðstæður geti breskir ráðherrar tekið einhliða ákvarðanir um vöruflutninga og viðskipti fram hjá þessari sameiginlegu nefnd. Þeir geti þá ákveðið hvaða vörur eigi að bera toll og hvaða fyrirtæki eigi að fá ríkisaðstoð.

Brandon Lewis, Norður-Írlandsmálaráðherra bresku stjórnarinnar, í þingræðu í neðri-málstofu breska þingsins
 Mynd: AP
Brandon Lewis, ráðherra Norður-Írlands.

Brandon Lewis, ráðherra Norður-Írlands, dró enga dul á að það væri verið að brjóta alþjóðalög, en þó aðeins á sértækan og takmarkaðan hátt. Hann sagði jafnframt að það væru fordæmi fyrir því að þjóðir þyrftu að endurskoða alþjóðlegar skuldbindingar þegar aðstæður breyttust. Sem sagt, þetta er lögbrot, en bara lítið og afmarkað.

Boris Johnson hefur sagt á þinginu að lagasetningin sé nauðsynleg til að Bretland haldi virðingu sinni ásamt því að vernda friðinn á Norður-Írlandi. Frumvarpið, verði það að lögum, skapi öryggisnet til að vernda landið gegn öfgakenndum túlkunum á samningsákvæðum sem myndu í raun þýða ströng landamæri milli breska meginlandsins og Norður-Írlands. 

Johnson segir Evrópusambandið hafa gefið það til kynna að túlkun ákvæðisins verði teygð kirfilega til að tryggja samningsstöðu sambandsins í viðræðunum um fríverslunarsamning við Breta. Það þýðir í stuttu máli að vörur frá Norður-Írlandi til Bretlands verði tollaðar að fullu þó að Norður-Írland sé hluti af Bretlandi - matarsendingar verði jafnvel stoppaðar. Ákvæði frumvarpsins verða þó ekki virkjuð nema að það mistakist að ná fríverslunarsamningi milli Bretland og Evrópusambandsins.

Tim Bale, varaforstöðumaður UK in a changing Europe.
 Mynd: Queen Mary University of London
Tim Bale.

En hvað skýrir þetta óvænta útspil breskra stjórnvalda? Tim Bale er varaforstöðumaður stofnunar sem heitir UK in a changing Europe, óháðrar rannsóknastofnunar sem fjallar um tengsl Bretlands og Evrópusambandsins. Hann segir ýmsar tilgátur uppi um hvers vegna þetta frumvarp kemur fram núna. 

„Ein ástæðan gæti verið að ríkisstjórnin skrifaði í flýti undir útgöngusamninginn án þess að skilja hversu mikla erfiðleika ákvæðið um Norður-Írland skapaði fyrir bresk fyrirtæki, einkum möguleika Breta til að veita þeim ríkisstyrki. Það er líka mögulegt að Bretar séu hreinlega að beita hörku til að auka þrýsting á Evrópusambandið í viðræðum um fríverslunarsamning, sem ég tel reyndar ótrúlegt miðað við þessi viðbrögð.“

En þriðji möguleikinn er að þetta sé til heimabrúks. „Boris Johnson gætið viljað sýna baklandi sínu, einkum þeim sem eru fylgjandi útgöngunni, að hann sé að beita sér af hörku, þannig að þegar hann þarf að draga í land geti hann sagt að sá samningur sem hann nái sé til kominn vegna staðfestu hans í viðræðunum.“

Ótrúlegt að ESB sé með hótanir

Tim Bale gefur lítið fyrir þær skýringar Johnsons að Evrópusambandið sé að hóta því að sendingar á mat og öðru slíku verði stoppaðar milli Norður-Írlands og Bretlandseyja. Hann eigi bágt með að trúa að Evrópusambandið sé með slíkar hótanir. „Málið snýst frekar um þær áhyggjur Breta að það verði mun erfiðara að veita atvinnustarfsemi ríkisaðstoð þar sem sum bresk fyrirtæki eru með höfuðstöðvar á Norður-Írlandi eða stunda þar viðskipti. Þar með hefðu reglur sem giltu þar áhrif á þau fyrirtæki.“

Bale bendir hins vegar á að þetta tollaeftirlit milli Norður-Írlands og Bretlands hafi verið talin besta leiðin úr úr ógöngunum þegar útgöngusamningnum var náð. Stjórnvöld þurfi að lifa með því.

Hörð gagnrýni á frumvarpið

Frumvarpið hefur vakið harða gagnrýni - já ég veit, ótrúlegt þegar þetta mál er annars vegar. Við skulum byrja á Evrópusambandinu, sem merkilegt nokk er ekki sátt við að alþjóðlög séu brotin, þó brotið sé lítið að mati breskra stjórnvalda. 

Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB var skýr þegar hún flutti sína fyrstu stefnuræðu frá því að hún tók við starfinu í fyrra.

Bæði Evrópuþingið og fulltrúadeild breska þingsins hafa staðfest samkomulagið. Það gengur ekki að breyta því, leiða það hjá sér eða ógilda það einhliða, segir Ursula. Og hún vitnaði í Margaret Thatcher fyrrverandi forsætisráðherra sem sagði einfaldlega: Bretland fer ekki á svig við samninga. Meira um fyrrverandi forsætisráðherra síðar.

Twitterfærsla Michel Barnier um stöðu Englands sem þriðja lands.
 Mynd: Twitter - Skjáskot

Michel Barnier aðalsamningamaður þess sagði í yfirlýsingu á fimmtudaginn í síðustu viku að það væri óvissa um reglur um dýraheilbrigði þegar aðlögunartímabilinu lyki. Talið er að hann sé þarna að vísa í til dæmis hormónakjöt og klórhreinsaðan kjúkling sem Bandaríkjamenn hafa áhuga á að flytja til Bretlands þegar landið verður komið út úr innri markaði Evrópusambandsins. Það þyrfti að skýra betur til að Evrópusambandið gæti metið hvort Bretland fengi stöðu þriðja ríkisins innan sambandsins. Þá stöðu þurfa Bretar að fá til að geta flutt vörur óhindrað til Evrópusambandslanda, en þeir verða þá að lúta reglum sambandsins. 

Þetta er nýr tónn í samningaviðræðunum því fram að þessu hafði það verið talið formsatriði að Bretar fengju þessa stöðu. En það er þetta sem Johnson er væntanlega að vísa í þegar hann talar um að Evrópusambandið sé að reyna að koma sér í betri samningsstöðu.

Þessu hefur David Frost aðalsamningamaður Breta mótmælt. Evrópusambandið viti vel hvernig reglurnar séu nú, enda séu þær í samræmi við reglur Evrópusambandsins. Ef þær breyttust yrðu bæði Evrópusambandið og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin látin vita með góðum fyrirvara. 

Írar hafa varað við því að þetta geti sett viðræður um fríverslunarsamning milli Breta og Evrópusambandið, sem eru nú þegar í frosti, í enn meira uppnám. Og stjórnarandstæðingar hafa líka gagnrýnt frumvarpið harðlega og segja þetta skemma orðspor Breta út á við.

Forverar Johnson gagnrýna frumvarpið

Fyrrverandi forsætisráðherrar Breta hafa líka gagnrýnt þetta - ekki einn eða tveir eða þrír heldur fimm slíkir - allir sem eru á lífi. Theresa May telur þetta rýra traust á stjórnvöldum. David Cameroon - sá sem ákvað að þjóðaratkvæðagreiðslan um útgöngu Breta yrði haldin og sagði svo af sér þegar útgangan var samþykkt - hefur efasemdir. Gordon Brown talar um sjálfsmark - það sé ekki hægt að skrifa undir samning og brjóta síðan þann sama samning. Að auki skrifuðu Tony Blair og John Major sameiginlega grein í Sunday Times síðustu helgi þar sem þeir segja að þetta styrki ekki samkomulagið um Norður-Írland frá 1998, heldur grafi þvert á móti undan því. 

Og það er meira að segja andstaða við málið í flokki Johnsons sjálfs, íhaldsflokknum. Hún kemur einkum frá lögfræðingum innan þingliðs flokksins, sem segjast ekki geta greitt atkvæði með frumvarpi sem brýtur í bága við alþjóðalög.

epa08669259 A handout photo made available by the UK Parliament shows Britain's Prime Minister Boris Johnson attending the debate into the Government's proposed Internal Markets Bill in the House of Commons in London in London, Britain, 14 September 2020.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR / UK PARLIAMENT HANDOUT  MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENT

Breytingar á frumvarpinu líklegar

Fulltrúadeild breska þingsins samþykkti á mánudag að frumvarpið færi á næsta stig þinglegrar meðferðar. Tim Bale segir hins vegar að afgreiðslu þar sé ekki lokið. Nefndirnar eiga eftir að fara í gegnum frumvarpið og þær geta lagt til breytingar. „Það eru nokkrir þingmenn Íhaldsflokksins sem vilja að þingið hafi lokaorðið um hvort alþjóðalög verði brotin. Síðan fer frumvarpið fyrir lávarðadeildina og þar gætu fleiri breytingar komið inn, breytingar sem gætu jafnvel gert frumvarpið að engu.“

Þegar Bale er spurður nánar út í þetta segir hann að stundum verði breytingar á frumvarpi það yfirgripsmiklar að ríkisstjórnin ákveði að draga það til baka. „Ég myndi þó sjálfur veðja á að frumvarpið verði að lögum, en í mjög breyttu formi. Stjórnvöld gætu á þeim tíma ákveðið að það væri betra að frumvarpið færi í gegn með þeim breytingum en að draga það algjörlega til baka.“

Bale segir að verði þetta niðurstaðan yrði það vissulega neyðarlegt fyrir Johnson, en það væri þó ekki í fyrsta sinn. Stjórnvöld hefðu tekið U-beygju í ýmsum málum síðustu vikur. „Það væri vissulega betri niðurstaða en að þurfa að glíma við uppreisn eigin þingmanna gegn því að brjóta alþjóðalög.“

ESB vill ennþá fríverslunarsamning

Bale segir Evrópusambandið á hinn bóginn afar ósátt við stöðuna. „Það lítur ekki aðeins á frumvarpið sem lögbrot heldur hafi Bretar líka brugðist trausti. Evrópusambandið vill enn þá ná fríverslunarsamningi við Breta en taka því ekki þegjandi ef frumvarpið í sinni endanlegu mynd brýtur í bága við útgöngusamninginn. Ég myndi þó frekar veðja á að það náist samningur, þó að líkurnar á því að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án samnings fari vaxandi.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi