Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kjörsókn fer rólega af stað á Austurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Kosið á Egilsstöðum í dag - RÚV/Rúnar Snær Reynisson
Fyrstu kjörstaðir á Austurlandi voru opnaðir klukkan níu í morgun og kjörsókn fer rólega af stað. Bjarni Bjögvinsson, formaður yfirkjörstjórnar, segir kjörsókn á fyrri hluta dagsins heldur minni en verið hefur í undangengnum kosningum. Um það bil 3.500 manns eru á kjörskrá. 

Sveitarstjórnar- og heimastjórnarkosningar fara fram í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar í dag. Fimm flokkar keppast um sæti; B-listi Framsóknarflokksins, D-listi Sjálfstæðisflokksins, L-listi Austurlistans, M-listi Miðflokksins og V-listi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. 

10 prósent höfðu kosið klukkan 11:30

Klukkan 11:30 hafði 241 kosið á Egilsstöðum, 35 á Seyðisfirði, 42 á Djúpavogi og 17 á Borgarfirði eystra. Það gerir um 10 prósent af þeim sem eru á kjörskrá. Bjarni Björgvinsson, formaður yfirkjörstjórnar, segir það heldur minna en í undangengnum kosningum. Þá hafa borist 335 utankjörfundaratkvæði. 

Það er meinlaust kosningaveður á svæðinu í dag, bjart og milt veður en hvessir í kvöld. Kjörstaður lokar á Borgarfirði eystra klukkan fimm í dag og klukkan sex á Djúpavogi. Opið er til tíu í kvöld á Egilsstöðum og Seyðisfirði. Gangi allt að óskum við talningu er búist við úrslitum upp úr miðnætti. 

Fólk í sóttkví kýs í tollafgreiðsluhúsinu á Seyðisfirði

Nokkrir eru í heimasóttkví eftir að hafa komið frá útlöndum undanfarið. Í fyrstu var ekki útlit fyrir að þeir gætu kosið. Í gær var þó ákveðið að setja upp aðstöðu í tollafgreiðsluhúsinu á Seyðisfirði þannig að fólk í sóttkví geti kosið.

Mynd með færslu
 Mynd: Lárus Bjarnason - Facebook
Aðstaðan í tollafgreiðsluhúsinu

Fyrirkomulagið verður með svipuðu sniði og á höfuðborgarsvæðinu fyrir forsetakosningar í sumar. Fólk í sóttkví verður að hafa samband áður en það mætir á staðinn. Upplýsingar um þá atkvæðagreiðslu er að finna hér.

Heimastjórnir fara með ákveðin mál í heimabyggð

Auk sveitarstjórnarkosninga fara fram kosningar í heimastjórnir. Þetta er í fyrsta sinni sem kosið er til heimastjórna sem fara með ákveðin mál í heimabyggð. Heimastjórnir verða fastanefndir sem starfa innan hvers hrepps í umboði sveitarstjórnar. Í hverri heimastjórn verða þrír fulltrúar og þeirra hlutverk er að tryggja aðkomu heimamanna að ákvörðunum sem snúa að þeirra byggðum. Heimastjórnir geta ályktað um mál og komið þeim á dagskrá sveitarstjórnar. Allir íbúar á hverju svæði eru í framboði til heimastjórnar þess, en einhverjir hafa gefið kost á sér sérstaklega á vefsíðunni svausturland.is.

Framan af leit út fyrir að fáir ætluðu að bjóða sig fram en svo rættist úr því. Tvö stigu fram á Borgarfirði, fimm á Djúpavogi, sjö á Fljótsdalshéraði, og fjögur á Seyðisfirði. Þetta fólk keppist um tvö sæti í hverri heimstjórn og tvö til vara, en þriðji maður kemur úr sveitarstjórn. Til að auðvelda fólki að skrifa fullt nafn og heimilisfang liggja frammi á kjörstöðum möppur með slíkum upplýsingum um þau rúmlega 3.500 sem eru á kjörskrá. Nánari upplýsingar um kosningar í heimastjórnir og frambjóðendur má nálgast hér.