Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Erfiður tími fyrir fólk í farsóttahúsi

19.09.2020 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fólk sem hefur leitað í farsóttahús Rauða krossins á Rauðarárstíg í Reykjavík í gær og í dag er farið að nálgast að vera 20 manns. Fimmtíu manns leituðu í aðstöðuna í fyrstu bylgjunni en nú hafa samtals 374 dvalið í sóttvarnarhúsum frá upphafi. Dvöl í sóttkví getur lagst þungt á fólk, segir umsjónarmaður farsóttahúsa.

„Hún hefur verið nokkuð góð, ef hægt er að nota það orð,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttahúsa hjá Rauða krossi Íslands, aðspurður um aðsóknina. „Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur. Með þessum auknu smitum fjölgar hjá okkur líka.“

Húsið er fjórar hæðir. Sú efsta er einangrunarhæð fyrir sýkta einstaklinga eingöngu. Nú er farið að nota hluta þriðju hæðarinnar fyrir þá líka. Önnur hæðin er fyrir fólk sem þarf að vera í sóttkví af einhverjum ástæðum. „Þeim líður mjög mis vel satt best að segja. Þetta leggst þungt á sálina hjá mörgum, eðlilega. Sumir sýna einkenni. Aðrir ekki. Þetta er erfitt fyrir fólk.“

Gylfi segir að fyrstu tveir sólarhringarnir geti verið erfiðir meðan fólk er að átta sig á hlutunum. „Einkenni fara kannski að koma fram á sjötta til áttunda degi. Sálin er svolítið erfið fyrstu vikuna. Það getur verið mjög erfitt og við verðum að sinna því.“

Gylfi segist ekki hafa gert ráð fyrir svo mikilli þörf fyrir þjónustuna þegar hann tók við hlutverki sínu. „Alls ekki. Ég bjóst ekki við að við yrðum svona lengi heldur. En við ætlum að klára þetta.“