Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eigendur skemmtistaða vilja ekki láta nafngreina þá

19.09.2020 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Sóttvarnayfirvöld hafa ítrekað hvatt eigendur skemmtistaða þar sem smit hefur greinst til að stíga fram og hvetja viðskiptavini sína til að fara í skimun. Eigendur hafa hins vegar óskað eindregið eftir því að nöfn staðanna komi ekki fram. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi almannavarna í dag. Yfirvöld telja sig ekki hafa heimild til að greina frá nafni staðanna.

„Við höfum verið í samskiptum við eigendur þessara staða, við höfum kvatt þá ítrekað til að koma fram og segja frá því,“ sagði Víðir. „Eigendur vita allir af þessu. Við höfum fengið mikið af upplýsingum, þeir hafa verið í góðri samvinnu við okkur. En þeir hafa óskað eindregið eftir því að staðirnir þeirra séu ekki nefndir. Eftir ýmsum skilyrðum sem við verðum að starfa eftir teljum við okkur ekki hafa heimild til að nefna þá.“

Víðir sagði að það væri samfélagslega ábyrgt af eigendum að stíga fram og upplýsa viðskiptavini sína um stöðuna. Hann kvaðst telja að enginn myndi tapa á því að stíga fram og hvetja viðskiptavini sína til að fara í skimun.

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Upplýsingafundur almannavarna 19. september.