Afturelding kom til baka og vann á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Afturelding kom til baka og vann á Akureyri

19.09.2020 - 12:25
Blaktímabilið hófst formlega hér á landi í gær þegar fyrsti leikur úrvalsdeildar kvenna fór fram á Akureyri. Þar mættust ríkjandi deildarmeistarar KA og Afturelding í æsispennandi leik. Íslandsmeistarar voru ekki krýndir í blakinu á síðasta tímabili en hætta þurfti keppni á miðju tímabili vegna kórónuveirufaraldursins.

Afturelding byrjaði leikinn vel á Akureyri og komst fljótt í forystu í fyrstu hrinunni, norðankonur játuðu sig þó ekki sigraðar, þær börðust vel og komust yfir seint í hrinunni og unnu að lokum 25-21, KA hélt áfram að spila gott blak í annarri hrinunni, liðið náði forystu snemma og lét hana aldrei af hendi. 25-21 var staðan sömuleiðis í annarri hrinu og þurfti KA einungis eina hrinu til viðbótar til að vinna leikinn.

Í þriðju hrinunni sýndu gestirnir klærnar og unnu hana sannfærandi 25-17. Fjórða hrinan var svo aftur æsispennandi og var allt í járnum framan af, jafnt var í stöðunni 20-20 en þá skoraði Afturelding fimm stig í röð og kláraði hrinuna 20-25 og sendi leikinn í oddahrinu. Í oddahrinunni var hart barist en að lokum var það Afturelding sem fullkomnaði endurkomuna og vann 15-11 og leikinn 3-2 eftir að hafa lent 2-0 undir í hrinum.

Paula Del Olmo Gomez var stigahæst hjá KA með 24 stig en Thelma Dögg Grétarsdóttir átti stórleik í liði Aftureldingar og skoraði 30 stig.