Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aðgerðir hertar í dag eða á morgun

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Líklegt er að sóttvarnaraðgerðir verði hertar um helgina, segir Víðir Reynisson. 75 manns greindust kórónuveirusmitaðir í gær. Smitrakningu er ekki lokið en að minnsta kosti þriðjungur þeirra tengist skemmtistöðum í miðborginni. Boðað hefur verið til upplýsingafundar á eftir. 

Flestir smituðu eru 18 til 29 ára

Tæplega 3300 sýni voru tekin í gær þar af voru tæplega 1200 einkennasýni svokölluð. Það er að segja fólk sem fer í sýnatöku því það er með einkenni sem gætu bent til kórónuveirusýkingar. Helmingur þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví.

Sjötíu manns á aldrinum 18 til 29 ára eru kóvidsmitaðir. Næstflest smit eru í aldurshópnum 30 til 39 ára en þau eru 40. Sex börn á aldrinum sex til tólf ára eru í einangrun. Þar af greindist nemandi í 7. bekk í Melaskóla í gær. Nemendur í hans bekk hafa verið sendir í sóttkví og eins umsjónarkennari bekkjarnis og fjórir aðrir kennara.

Ekki svona mörg smit síðan 1. apríl

Nýgengi innanlandssmita eru nú tæplega 42 á hverja 100 þúsund íbúa. Smitin voru 75 í gær eins og áður sagði. Síðan faraldurinn hófst hafa fjöldi smita á dag farið sjö sinnum yfir 75. 5. apríl voru smitin 74 og 1. apríl 99. Flest smit greindust 24. mars eða 106. 

Rúmur þriðjungur a.m.k. tengist skemmtistöðum

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir að nú sé hægt að tala um að smitin séu útbreidd. Smitin í gær voru öll á höfuðborgarsvæðinu nema tvö.  

„Við erum ekki búin að ljúka smitrakningu á öllu þessu. En í gærkvöldi þegar þá var, þegar við vorum búin að ná í kringum einhver 50 smit að það var rúmlega helmingur af þeim sem tengdist skemmtistaða-, svona hvað segjum við, búbblunni sem við erum búin að skoða síðustu daga. Og það eru svona fleiri skemmtistaðir inn í þeirri skoðun.“ 

Heldur en Irishman Pub áttu við?

„Já, já,“ segir Víðir. 

Þurfum að grípa til eigin aðgerða strax

Hann segir að nú sé verið að fara yfir hægt hvernig aðgerða sé hægt að grípa til.

„Stóra málið í þessu sé auðvitað bara að nú þurfum við öll grípa til þeirra aðgerða sem við gerðum svo vel í vor. Við þurfum að gæta að því hverja við erum að hitta. Við þurfum að forðast fjölmenni, halda fjarlægðinni og okkar eigin sóttvarnir skipta bara öllu máli núna. Alveg óháð því til hvaða aðgerða verður gripið þá þurfum við hvert og eitt að grípa til okkar eigin aðgerða og gera það strax.“

Harðari aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu

Áttu von á því að það verði gripið til einhverra aðgerða í dag eða á morgun?

Já, það finnst mér frekar líklegt, já.“

Hvernig væru þær þá?

„Það er bara allt í vinnslu. Sóttvarnalæknir er að meta þetta og tala við sína ráðgjafa og það er verið að skoða alvarleika veikinda og fleira hvernig þessi smit hafa verið að dreifast og eitt og annað, verið að reyna að átta sig á því hvar er hægt að beina aðgerðunum eða hvort þær þurfi að vera almennari. En það er ljóst að þessar aðgerðir munu fyrst og fremst snúa að höfuðborgarsvæðinu.“