Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Að velja dómara strax, eða ekki. Þar liggur efinn

Mynd með færslu
Hæstiréttur Bandaríkjanna. Mynd: CC0 - Pixabau
Trump Bandaríkjaforseti ætti að tilnefna nýjan dómara við Hæstarétt þegar í næstu viku. Þetta er mat Teds Cruz öldungadeildarþingmanns Repúblikanaflokksins, frá Texas.

Repúblikanaflokkurinn hefur nú á að skipa 53 Öldungadeildarþingmönnum, Demókratar 45 og tveir eru óháðir.

Cruz sem er staðfastur fylgismaður forsetans, kveðst búast við miklum þrýstingi frá fjölmiðlum og Demókrataflokknum að fresta því að fylla sæti Ruth Ginsburg heitinnar.

Hann fullyrðir að verði ekki skipað í réttinn fyrir forsetakosningarnar blasi stjórnskipuleg kreppa við Bandaríkjunum. Því beri hvorki forsetanum né öldungadeildinni að tvínóna við útnefningu nýs hæstaréttardómara.

Ted Cruz er lögfræðingur að mennt og er á lista Trumps yfir þau sem koma til greina í embættið. Hann bendir á að forsetakjör Trumps og meirihluti repúblikana í öldungadeildinni sýni að kjósendur séu fylgjandi umsvifalausu vali á dómara af því tagi sem forsetinn kýs.

Margskonar viðhorf öldungadeildarþingmanna

Mitch McConnell, leiðtogi rebúblikana í öldungadeildinni tekur undir orð Cruz og heitir því að val forsetans verði staðfest í deildinni. Þó liggur ekki alveg ljóst fyrir hver hugur þingmanna flokksins er til málsins.

Allmargir hafa þegar lýst yfir fylgi við það að velja dómara fyrir kosningar en bæði Lisa Murkowski þingmaður Alaska og Susan Collins þingmaður Maine hafa sagst efins um að fara þannig að.

Eins liggur viðhorf Mitt Romney öldungadeildarþingmanns Utah ekki ljóst fyrir en hann var eini repúblikaninn sem greiddi atkvæði með því að sakfella Trump fyrir embættisglöp í febrúar.

Aðrir þingmenn hafa áður lýst yfir vafa á að staðfesta nýjan Hæstaréttardómara í skyndingu. Öldungadeildinni beri að vera staðföst í ákvörðunum sínum, segja sumir þeirra, og vísa þar til þeirrar ákvörðunar að staðfesta ekki val Baracks Obama á Mick Garland árið 2016. Þá lifði innan við ár af kjörtímabili forsetans.

Við val á síðustu tíu tilnefndum hæstaréttardómurum hefur Öldungadeildin að meðaltali tekið sér 74 daga að staðfesta valið. Lengst tók það 99 daga þegar Clarence Thomas var tilnefndur 1991 niður í 50 daga þegar Ruth Ginsburg varð fyrir valinu 1993.