Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

75 smit innanlands í gær – helmingur í sóttkví

19.09.2020 - 11:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
75 smit greindust innanlands í gær. Svo mörg smit hafa ekki greinst hér á landi síðan 1. apríl síðastliðinn þegar greindust 99 smit. Helmingur þeirra sem greindust voru í sóttkví.

Síðustu fimm daga hafa greinst 135 smit innanlands. Í gær var greint frá því að á fimmtudag hefði greinst 21 smit innanlands og að tveir væru á sjúkrahúsi. Á miðvikudag greindust 19 smit og 13 á þriðjudag. 181 eru nú í einangrun og 765 í sóttkví.

Alls voru tekin 3.629 sýni í gær og 1.186 þeirra voru tekin vegna einkenna. Tæplega 5 prósent einkennasýnanna reyndust jákvæð. Nýgengi smita innanlands er nú 41,7. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur boðað til upplýsingafundar í dag klukkan 14:00 vegna mikils fjölda smita. Á fundinum verða Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.