Vakna gamlar þrár

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanna Seljan

Vakna gamlar þrár

18.09.2020 - 13:05

Höfundar

Mývetningurinn og Reyðfirðingurinn Jóhanna Seljan gefur hér út sína fyrstu plötu og kallast hún Seljan. Platan er bærilegasta frumraun og öll spilamennska á henni er til fyrirmyndar.

Jóhanna Seljan ku lengi hafa átt sér þann draum að koma út plötu og hér er hún, níu laga. Hún hefur sungið með ótal hljómsveitum allar götur síðan í framhaldsskóla en hér snarar hún út frumsömdu verki en eitt tökulag er þó að finna (með hinni gagnmerku sveit Helga og Hljóðfæraleikurunum). Platan var tekin upp í apríl á þessu ári í Stúdíó Síló á Stöðvarfirði og eru það Birgir Baldursson sem leikur á trommur, Jón Hafliði Sigurjónsson á bassa, Jón Hilmar Kárason á gítar og Kjartan Valdemarsson á píanó. Fjarðadætur syngja bakraddir og Garðar Eðvaldsson stýrði upptökum, sá um hljóðblöndun og tónjöfnun.

Þetta er prýðilegasti frumburður. „This is it“ opnar plötuna, einslags djasspopp eður -rokk, minnir mig dálítið á slíkar æfingar við endaðan níunda áratuginn (Lisa Stansfield?). Hvass rafgítar, öruggur trommusláttur og grúvandi gott píanó byggja undir hina ágætustu framvindu. „The River“ er hressilegra, rokkari sem leynir á sér, lúmsk uppbygging og sniðugar fettur og brettur (Jón Hilmar með góðan spagettívestragítar). „Sunday Sweet“ er, eins og nafnið gefur til kynna, rökkurballaða og vel heppnuð sem slík. Flott andrúmsloft í laginu og ég verð að hrósa spilamennskunni á plötunni. Ekki bara þétt heldur oft og tíðum glúrnar lausnir og skemmtilegar krúsídúllur líka, veri það í sjálfum hljóðfæraleiknum eða útsetningum.

Næstu lög eru í meira hæglætistempói en upphafslögin, reykfylltar og djassskotnar ballöður og til þess að gera fínar. Ég hefði samt alveg viljað heyra meira af hraðari popp/rokkurum, þessi tvö fyrstu lög eru skemmtilega samin og stinga þægilega í stúf. Jóhanna eru dálítið mislagðar hendur með sjálfan sönginn, eins og hún sé aðeins of hikandi á köflum (upphafslagið t.d.) en í ákveðnum stílbrögðum, sjá t.d. hið djassaða og nánast bylmingslega, „Ashes“ er hún öruggari í allri beitingu. Lætur vaða og klifrar upp tónstigann eins og að drekka vatn. Allt í allt býsna burðugt hvað fyrstu plötu varðar og umslagshönnun og slíkt til fyrirmyndar líka.

Tengdar fréttir

Tónlist

Einlægt alþýðupopp

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt