Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Stjórnarsamstarf í uppnámi í Póllandi

18.09.2020 - 08:42
Erlent · Pólland · Evrópa
epa08450811 Polish Prime Minister Mateusz Morawiecki (C) delivers a speech during a parliamentary debate during the second day of the sitting of the Sejm in the parliament building, in Warsaw, Poland, 28 May 2020. MPs were debating the motion of censure against minister Jacek Sasin, which was rejected in voting.  EPA-EFE/LESZEK SZYMANSKI POLAND OUT
Frá fundi í pólska þinginu fyrr á þessu ári. Mynd: EPA-EFE - PAP
Óvissa er um stjórnarsamstarf í Póllandi eftir að samstarfsflokkar Laga- og réttlætisflokksins í ríkisstjórn greiddu í gær atkvæði gegn frumvarpi flokksins. Talsmaður Laga- og réttlætisflokksins sagði í morgun að kosningum kynni að verða flýtt eða að flokkurinn myndaði minnihlutastjórn.

Hið umdeilda frumvarp sem fjallar um meðferð á dýrum var samþykkt með stuðningi stjórnarandstöðuflokka í neðri deild pólska þingsins, en til að það verði að lögum þarf það einnig samþykki öldungadeildar sem fær nú málið til umfjöllunar.

Í frumvarpinu er meðal annars kveðið á um að loðdýrarækt verði bönnuð og að bannaður verði útflutningur á afurðum af dýrum sem slátrað hefur verið í samræmi við trúarsiði gyðinga og múslima, en Pólverjar hafa verið umsvifamiklir á því sviði.

Talsmaður Laga- og réttlætisflokksins sagði í morgun að leiðtogar stjórnarflokkanna ætluðu að hittast í næstu viku og þar sem örlög ríkisstjórnarinnar myndu ráðast.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV