Steinar í skáldskap og tónlist

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay.com - .

Steinar í skáldskap og tónlist

18.09.2020 - 16:56

Höfundar

Steinar láta yfirleitt ekki mikið yfir sér, sumir þeirra eru að vísu fallegir og vekja áhuga safnara, en hinn hversdagslegi steinn er grár og óásjálegur. Samt hafa steinar oft heillað skáld og stundum orðið uppspretta tónsmíða.

Árið 1977 kom út bókin „Óður steinsins“ sem hafði að geyma ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk og ljósmyndir eftir Ágúst Jónsson. Ágúst hafði safnað steinum og þegar hann fór að skoða þá vaknaði hjá honum löngun til að sjá hvernig þeir væru að innanverðu. Hann slípaði steinana og sagaði þá í þunnar flögur, varpaði ljósi í gegnum flögurnar, tók myndir og stækkaði. Þá kom í ljós innan í steininum heil veröld lita. Ágúst langaði til að gefa myndirnar út í bók, en fannst vanta texta. Sonur hans fór með myndirnar til skáldsins Kristjáns frá Djúpalæk og þannig varð til ljóðaflokkurinn „Óður steinsins“, 30 ljóð þar sem eitt ljóð fylgir hverri steinmynd. Kristján sagði um þetta:

„Íslensk þjóð hefur alltaf skynjað líf í steini; hún heyrði þaðan söng, sá bláklæddar huldur líða þar um sali, dverg teygja gullþráð við steðja og smíða biturt sverð við neistaflug. Kannski var steinninn okkur á vísindaöld orðinn „frosið myrkur, sálarlaus harka“, en Ágúst Jónsson, ákafan safnara góðsteina, grunaði enn hinn forna galdur. Hann sagaði steininn í örþunnar sneiðar, bar þær upp að ljósinu og sjá: Lífið svaf þar inni. Hann beindi að þeim ljósopi myndavélar og af skarpri sýn festi hann undrið á filmu. Hann leysti steininn úr álögum.“

Bók með raunverulegan stein

Jónas Ingimundarson píanóleikari gaf Atla Heimi Sveinssyni tónskáldi bók þeirra Ágústar og Kristjáns. Árið 1983 samdi Atli Heimir píanóverk í 30 stuttum þáttum, einn þátt fyrir hverja mynd og ljóð. Þar með var listaverkið orðið þríþætt: mynd, ljóð og tónlist.

Af íslenskum skáldskap um steina má nefna ljóðin „Rauði steinninn“ eftir Guðmund Böðvarsson og „Steinninn“ eftir Stefán Hörð Grímsson, en við síðarnefnda ljóðið hafa bæði Jón Ásgeirsson og Hjálmar H. Ragnarsson samið lög. Sum skáld vísa til steina í titlum ljóðabóka sinna, eins og til dæmis Anna S. Björnsdóttir sem sendi frá sér ljóðabókina „Skilurðu steinhjartað“ árið 1993. Bókin hefur þá sérstöðu að hverju eintaki hennar fylgir steinn. Gat hefur verið borað í gegnum steininn og hann þræddur upp á leðurreim sem heldur bókinni saman.

Í þættinum „Á tónsviðinu“ var fjallað um tónsmíðar og skáldverk sem tengjast steinum. Þátturinn er aðgengilegur í útvarpsspilara RÚV.