Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sitjandi forseti Bólivíu hættir við framboð

18.09.2020 - 02:11
epa07999556 Interim President of Bolivia, Jeanine Anez, speaks at a press conference at Government Palace in La Paz, Bolivia, 15 November 2019. Anez announced that this day she hopes to start the process for new elections after the failed elections that led to the resignation of Evo Morales.  EPA-EFE/RODRIGO SURA
Jeanine Áñez, forseti Bólivíu til bráðabirgða. Mynd: EPA-EFE - EFE
Jeanine Anez, sitjandi forseti Bólivíu, tilkynnti í dag að hún drægi framboð sitt til baka. Nú er aðeins mánuður til kosninga.

Hún kveðst óttast að atkvæði ætluð lýðræðisöflum í landinu dreifist um of haldi hún framboði sínu til streitu. Það gæti leitt til sigurs sósíalistaflokks Evo Morales fyrrverandi forseta sem sagði af sér í nóvember í fyrra. Anez kallar eftir samstöðu gegn frambjóðanda flokksins.

Nýjar skoðanakannanir benda til að Anez hefði lent í fjórða sæti meðal kjósenda en Luis Arce frambjóðandi sósíalista hefði orðið efstur í kjöri til forseta Bólivíu.

Anez tók við embætti forseta Bólivíu eftir afsögn Morales í nóvember. Ætlunin var að hún leiddi bráðabirgðastjórn fram að kosningum 2020. Tilkynning hennar í janúar að gefa kost á sér var gagnrýnd harðlega af andstæðingum en einnig nokkrum úr hópi samherja hennar.