Rúmra fjögurra ára dómur ómerktur

18.09.2020 - 20:54
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur ómerkti í dag dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir karlmanni sem hafði verið dæmdur í fjögurra ára og þriggja mánaða fangelsi. Landsréttur sagði vafa leika á því að maðurinn hefði játað brot sín skýlaust eins og var forsenda fyrir dómi héraðsdóms. Því verður að taka málið aftur fyrir í héraðsdómi og dæma það upp á nýtt.

Maðurinn var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot. Hann hlaut fjögurra ára og þriggja mánaða dóm. Stærsti hluti refsingarinnar var til kominn vegna skilorðsbundins dóms sem maðurinn hafði áður hlotið. Dómari taldi hann hafa brotið skilorð og kvað því upp samtals fjögurra ára og þriggja mánaða dóm. 

Sakfelldi maðurinn sætti sig ekki við þetta. Hann sagðist aðeins hafa staðfest fyrir dómi þann framburð sem hann hefði gefið hjá lögreglu. Hann hefði játað að hafa haft fíkniefni í vörslu sinni en ekki að hann hefði ætlað að selja þau. Með því hefði hann ekki játað sök enda væri ákæran með öðrum hætti en játning hans hjá lögreglu. Að auki taldi maðurinn að löglærður aðstoðarmaður dómara hefði ekki haft heimild til að dæma upp fjögurra ára skilorðsbundna refsingu. Landsréttur tók undir með manninum um að vafi léki á því að hann hefði játað skýlaust öll brot. Því var það óhjákvæmilegt að mati Landsréttar að ómerkja dóminn og vísa aftur til efnismeðferðar í héraði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi