„Reyndum virkilega að koma okkur í þennan hugarheim“

Mynd: RÚV / Menningin

„Reyndum virkilega að koma okkur í þennan hugarheim“

18.09.2020 - 14:01

Höfundar

„Þetta er eiginlega fyrsta stóra íslenska dramaserían sem fjallar um stjórnmál. Við erum að splæsa saman stjórnmálum og geðveiki,“ segir Björg Magnúsdóttir einn af handritshöfundum Ráðherrans en fyrsti þátturinn er sýndur á sunnudagskvöld á RÚV.

„Þarna er andlega tæpur maður á valdastóli. Við fylgjumst með ferðalagi hans sem er í maníu í kosningabaráttunni og nær að komast í forsætisráðuneytið,“ segir Björg í samtali við Morgunútvarpið. „Svo fer ýmislegt að gerast samhliða því að veikindi hans ágerast,“ segir Björg. Arnór Pálmi Arnarson sem er einn af leikstjórum þáttanna segir að enginn í kring um aðalpersónuna Benedikt viti af veikindum hans, allra síst hann sjálfur. „Það er svo skemmtilegt, hvað fólki finnst hann fyrst heillandi að tala tæpitungulaust, en fattar svo að það sé eitthvað skrítið í gangi.“

Ráðherrann fyrsti þáttur
 Mynd: - - Ráðherrann
Fyrsti þáttur ráðherrans hefst á kappræðum.

Björg segir að strax í fyrsta þætti komi í ljós að Benedikt, sem er formaður Sjálfstæðisflokksins í þáttunum, sé öðruvísi stjórnmálamaður. „Hann vill tala manneskjulega við fólk og nennir ekki þessu stjórnmála-jargoni sem margir eru þreyttir á. Hann er bara með stórt hjarta og opinn faðminn.“ Aron og Björg lögðust í mikla rannsóknarvinnu við ritun og gerð þáttana, meðal annars á stjórnmálamönnum sem hafa glímt við geðveiki.

„Uppáhalds reffinn minn er Jónas frá Hriflu og stóru bombumálin þegar yfirlæknirinn á Kleppi flaggar því opinberlega að dómsmálaráðherra sé geðveikur.“ Annað nærtækara dæmi hafi verið Ólafur F. Magnússon fyrrverandi borgarstjóri sem hafi verið beðinn um að framvísa læknisvottorði. „Sumir tala líka um að fólk hafi misnotað aðstöðu sína gagnvart veikindum hans þegar honum var komið í embætti.“ Þá hafi margir efast um andlega heilsu Donalds Trumps vestanhafs.

Að sögn Bjargar er svið stjórnmálanna kjörinn bakgrunnur fyrir drama. „Fólk er í þess ástandi, allar taugar eru þandar og svona.“ Í hverjum þætti er eitthvað pólitískt málefni tekið fyrir, þar á meðal séu móttaka flóttamanna, kvótakerfið og aðskilnaður ríkis og kirkju. „Reynum að fara í svona þjóðarminni, þekkt bitbein sem allir elska að rífast um í heita pottinum.“

Tekið af tökum á Ráðherranum
 Mynd: Lilja Jónsdóttir - Sagafilm
Arnór Pálmi Arnarson leikstjóri ræðir við Ólaf Darra í tökum.

Einn partur af undirbúningsvinnu handritshöfundanna var að taka viðtöl við fólk sem glímir við geðhvörf. „Reyndum virkilega að koma okkur í þennan hugarheim. Okkur finnst það skipta máli að gera þetta af mikilli virðingu fyrir fólki með geðhvarfasýki.“ Aron tekur undir þetta, það sé mjög auðvelt að mála ýkta og farsakennda mynd af fólki í geðhæð, eitthvað sem þau vildu alls ekki. Hann hefur orð á því hversu erfitt það sé fyrir leikara að túlka það breiða svið andlegs ástands sem geðhvörf eru, ekki síst þar sem þættirnir voru ekki teknir upp í línulegri röð. „Boginn hans er stigvaxandi. Þannig við Ólafur Darri vorum með kerfi, fimm stig af vori. Hann spurði um ástandið og ég bara, „Þetta er 3,5 á vori.“ Þá fattaði hann strax.“ Ólafur Darri hafi játað fyrir honum að þetta sé eitt erfiðasta hlutverkið sem hann hafi tekist á við. „Að leika sig svona upp og niður kannski á sama klukkutímanum.“

Umræðan um geðsjúkdóma hefur umbreyst mikið á síðustu árum og til hins betra að mati Bjargar. „Umræðan er að opnast og leyndarhjúpurinn tilheyrir fortíðinni.“ Aron tekur undir þetta. „Við reyndum allavega að sýna þessu virðingu og gera þetta fallega.“ Þá séu fleiri og fleiri að nota listsköpun til að takast á við geðhvörfin. „Ég hlakka bara til að lesa internetið,“ segir Aron aðspurður um hvort hann sé stressaður fyrir frumsýningu. „Við kvikmyndagerðafólk erum ekki eins og í leikhúsi, þar sem þú færð feedback instantly. Við erum að bíða í eitt og hálft ár. Svo kemur þetta og það er svo gaman.“

Rætt var við Björgu Magnúsdóttur og Aron Pálma Arnarson í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

„Leyfum við stjórnmálamönnum að vera andlega veikir?“

Sjónvarp

Ráðherrann tilnefndur til PRIX Europa-verðlaunanna

Sjónvarp

Einstigi milli snilligáfu og geðveiki

Kvikmyndir

Tóku Ráðherrann upp á heimavelli höfunda