Opna bar á sama tíma og öðrum er lokað

Opna bar á sama tíma og öðrum er lokað

18.09.2020 - 19:54

Höfundar

Borgarleikhúsið frumsýnir í kvöld leikverkið Oleana. Þetta er fyrsta frumsýning leikhússins frá 13. mars þremur dögum áður en skella þurfti í lás. Þá var frumsýnt verkið Níu líf, um ævi og tónlist Bubba Morthens. Leikritið var þó ekki það eina nýja sem blasti við frumsýningargestum. Borgarleikhúsið opnaði líka nýjan bar, sama dag og krám var lokað á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er aldeilis tímasetningin hjá okkur. Þessi bar verður opinn á meðan veitingasalan er opin. Við erum hvorki skemmtistaður né krá en við erum menningarhús með veitingaleyfi,“ sagði Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, spurð út i tímasetninguna. Eigendum öldurhúsa hefur verið gert að hafa bari sína lokaða um helgina vegna útbreiðslu COVID-19.

Þó er ekki ástæða til að ætla að barinn í Borgarleikhúsinu komi í stað þeirra sem eru læstir þessa dagana. Brynhildur sagði að sýningargestir gætu verslað á barnum til fimm mínútur í átta. „Þá fara allir inn í sal.“

Borgarleikhúsið getur tekið á móti 118 gestum á frumsýninguna. Það eru 49 prósent af fullum sal. Síðustu daga hefur smitum fjölgað dag frá degi en óvíst hvaða áhrif það hefur á leikhússtarfsemi. „Ég veit ekkert um framhaldið, ekki frekar en nokkur annar. Ég biðla til fólks að sinna sínum persónulegu sóttvörnum. Það er allra hagur. Förum varlega,“ sagði Brynhildur.