Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Myndir sem dvelja í líkamsminninu

Mynd: RUVmynd / RUVmynd

Myndir sem dvelja í líkamsminninu

18.09.2020 - 11:45

Höfundar

„Við vildum sýna margt af því sem fólk kannast við en veit ekki endilega að hafi verið úr hans penna, hluti eins og bókarkápur, forsíður tímarita, seðla, merki fyrirtækja og frímerki,“ segir Unnar Auðarson um Halldór Pétursson teiknara.

Halldór Pétursson starfaði frá 1938 fram til dauðadags árið 1977 og fangaði einhvern anda samfélagsins á þessum tíma. Stór sýning á verkum Halldórs hefur nú verið opnuð í myndasal Þjóðminjasafns Íslands, en Unnar er sýningarstjóri hennar.

Halldór Pétursson hélt til Kaupmannahafnar í nám á fjórða áratugnum en þar var fyrir systir hans í sama námi, því sem síðar var kallað auglýsingateikning. Í síðari heimsstyrjöld hélt Halldór síðan til Bandaríkjanna og varð fyrir miklum áhrifum þar. Til dæmis um þau áhrif má nefna forsíður Vikunnar sem Halldór teiknaði og minna stundum á forsíður Mad tímaritsins bandaríska.

„Þarna fór Halldór í góðan skóla, sama skóla og stórir teiknarar í Bandaríkjunum sóttu á þessum tíma. Hann kemur úr þessari hefð, reynir að fanga einhvern kjarna í því sem hann teiknar en hann fangar líka tímann, birtir ákveðin hlutverk til dæmis er varðar stöðu kynjanna.“ 

Halldór var fæddur í Reykjavík og fór snemma að teikna borgina sem breyttist hratt. Unnar nefnir til dæmis forsíðumyndir sem Halldór gerði fyrir tímaritið Úrval á sjöunda áratugnum.

„Margir þeir sem lærðu teikningu á þessum árum fóru yfir í aðrar greinar eins og arkitektúr en Halldór hélt sig við þetta allt sitt líf og verk hans fóru ótrúlega víða. Hann teiknaði peningaseðla, merki Reykjavíkur, Flugleiða og Rafmagnsveitna Reykjavíkur. Þessi merki þekkja margir og þau eru eiginlega í líkamsminninu hjá fólki, ef svo má segja,“ segir Unnar. 

Merkilegt safn

Á yfirlitssýningunni í Þjóðminjasafninu kemur fjölhæfni Halldórs sem teiknara bersýnilega í ljós, en þar eru sýndar teikningar, skissur og fullunnin verk hans frá barnæsku til æviloka. Árið 2017 færðu börn Halldórs Þjóðminjasafni til varðveislu heildarsafn teikninga föður síns. Stór hluti verkanna á sýningunni koma úr þeirri safneign en eins eru sýnd verk fengin að láni frá fjölmörgum stofnunum hér á landi.

Viðtalið við Unnar Auðarsson, úr Víðsjá má heyra hér að ofan.