Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

LIVE um Icelandair: Ekki áhættunnar virði

18.09.2020 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ágreiningur var innan stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna um þáttöku í hlutafjárútboði Icelandair, en niðurstaðan var að það væri ekki áhættunnar virði. Forstjóri Icelandair segist auðmjúkur yfir mikilli þátttöku í útboðinu. Sjö milljarða tilboði Michele Ballarin var hafnað.

Fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair lauk með hlutafjárútboðinu. Stefnt var að því að safna 20 milljörðum í nýju hlutafé og allt að 23 milljörðum. [grafík]Yfir níu þúsund áskriftir bárust að fjárhæð rúmlega 37 milljarðar á genginu 1. Hins vegar verða seldir 23 milljarðar hluta og segir forstjóri Icelandair ekki standa til að auka hlutaféð frekar þrátt fyrir þessa eftirspurn. Þeir sem keyptu fyrir milljón eða minna fá sitt og verða hluthafar í Icelandair yfir ellefu þúsund og hlutaféð fer út 5,4 milljörðum í 28,4 milljarða.

„Við erum náttúrlega mjög ánægð með viðbrögðin í útboðinu og hversu mikið safnaðist og hversu margar áskriftirnar voru, mikil umframeftirspurn þannig að við erum auðmjúk og stolt yfir þessum mikla stuðningi við Icelandair og hvernig þetta tókst allt saman til,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.

Michele Ballarin, sem á sínum tíma keypti hluta af þrotabúi WOW, var á landinu í vikunni og falaðist eftir hlut í Icelandair. Fullyrt hefur verið að hún hafi viljað kaupa fyrir sjö milljarða, en ekki getað sýnt fram á fjármögnun og rímar það við heimildir fréttastofu. Forstjóri Icelandair vill ekkkert tjá sig um það.

„Eins og er í útboðum sem þessum hafa umsjónaraðilar heimild til þess að óska eftir staðfestingu á fjármögnun á áskriftum og það var gert í nokkrum tilvikum í gær í þessu útboði. Í einu tilviki tókst áskrifanda ekki að staðfesta fjármögnun og því var þeirri áskrift hafnað.“
Var það stórt tilboð?
„Ég get ekki tjáð mig um það. Það var einni áskrift hafnað.“
Var það Ballarin?
„Ég get ekki tjáð mig um einstakar áskriftir.“

Fjármálaráðherra segir niðurstöðu útboðsins jákvæða og fólk viðist hafa trú á félaginu. Ríkissjóður veitti Icelandair ábyrgð á lánalinu upp á 16,5 milljarða. Fjármálaráðherra segir niðurstöðu útboðsins engu breyta um lánalínuna, en forsenda hennar var að hlutafjárútboðið tækist.

„Þetta breytir þó því að það dregur úr líkum á því að það reyni á ríkisbábyrgðina vegna þess að menn eru að safna meira hlutafé heldur en minna. En við verðum eftir sem áður alltaf að gera ráð fyrir því að á hana geti reynt, þess vegna er hún þarna,“ segir Bjarni Benediktsson.

Fyrir hlutafjárútboðið var Lífeyrissjóður verslunarmanna stærsti hluthafinn í Icelandair. Stjórn lífeyrissjóðsins ákvað hins vegar að taka ekki þátt í hlutafjárútboðinu núna, segir Stefán Sveinbjörnsson formaður stjórnar Landssambands lífeyrissjóða.

„Við fórum í gegnum mjög ítarlega greiningu og fengum til okkar meðal annars ráðgjafa til þess. Og eftir mjög ítarlega yfirlegu sáum við að áhættan væri töluverð í þessu og ávöxtunin hún væri ekki að vega upp þá áhættu sem væri verið að taka.“
 Var einhugur um þetta í stórn sjóðsins?
„Nei það var ekki.“

Tíu lífeyrissjóðir voru meðal tuttugu stærstu hluthafa í Icelandair fyrir útboðið. Lífeyrissjóður verslunarmanna tók ekki þátt, eins og fyrr segir, en það gerði Gildi hins vegar. Birta tók ekki þátt en Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins gerði það sem og Stefnir. Frjálsi lífeyrissjóðurinn tók ekki þátt, en Brú, Almenni lífeyrissjóðurinn, Stapi og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda tóku þátt.