Kemur á óvart í hvaða hverfum börnum fjölgar í borginni

18.09.2020 - 13:11
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir að mönnun leikskóla í borginni hafi ekki gengið eins vel og við var búist miðað við núverandi atvinnuástand. Þá gangi illa veita öllum 18 mánaða börnum leikskólapláss þrátt fyrir átak í fjölgun ungbarnadeilda.

Fréttablaðið greindi í morgun frá því að lengri bið er eftir leikskólaplássi í borginni en í hinum sveitarfélögunum, dæmi séu um að tveggja ára börn komist ekki að.

Dagur segir fjölda ungabarnadeilda hafa opnað undanfarið í borginni, hins vegar sé fjölgun barna mikil í Reykjavík.

„Þannig að sérstaklega í sumum hverfum þá hefur þetta ekki gengið nógu vel. Ég er ekki nægilega ánægður með það. [...] Bæði kemur okkur aðeins á óvart að hverfi þar sem ástandið hefur verið gott þar er orðið fullt af börnum og síðan er rýmra um í öðrum hverfum þannig að í sumum tilvikum hafa foreldrar alls ekki verið að fá inni á leikskólunum sem þau helst vilja.“

Nú þegar ráðningarmál skýrist í upphafi næsta mánaðar verði teknar nýjar ákvarðanir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Enn sé markmið borgarstjórnar að minnka biðtímann.

„Við erum á fullu að bæta við ungbarnadeildum, við erum á fullu að bæta við leikskólum,“ segir Dagur,  „og við ætlum okkur að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.“

Hvernig hefur gengið að manna leikskólana? 

„Það hefur gengið heldur betur en þegar verst hefur látið á undanförnum árum en kannski ekki eins vel og við bjuggumst við miðað við atvinnuástandið.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi