Hvað ef Trump neitar að fara úr embætti?

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Forsetaframboð Joe Biden safnar nú að sér liði lögfræðinga vegna þeirrar lagaflækju sem gæti orðið að loknum kosningunum í nóvember. Allt stefnir í að kosningaúrslitin verði ekki ljós á kosninganótt, vegna sögulegs fjölda póstatkvæða sökum kórónuveirufaraldursins. Þá getur sú staða komið upp að Donald Trump neiti að yfirgefa Hvíta húsið verði kosningaúrslitin honum í óhag.

Trump hefur ítrekað á framboðsfundum sínum og blaðamannafundum viðrað þá skoðun sína að stórfellt svindl verði viðhaft í kosningunum í haust. Nefnir hann þar sérstaklega til sögunnar póstatkvæðin, sem hann segir einstaklega óörugga leið. Trump lagði meira að segja til í sumar að kosningunum yrði frestað. Þá skrifaði hann á Twitter að kosningarnar í ár yrðu þær ónákvæmustu og óheiðarlegustu í sögunni vegna almennra póstatkvæða. Tók hann sérstaklega til að utankjörfundaratkvæði væru ekki þar á meðal, því þau væru af hinu góða. Hann sagði kosningarnar eiga eftir að verða vandræðalegar fyrir Bandaríkin og þeim ætti að verða frestað þar til kjósendur gætu greitt atkvæði sín á öruggan hátt. Fram að færslunni á Twitter og eftir hana hefur hann lýst efasemdum sínum um lögmæti kosninganna.

Fer Trump hvergi?

Það sem veldur andstæðingum forsetans meiri áhyggjum er að undanfarið hefur hann lýst því yfir að eini möguleikinn á að hann tapi kosningunum verði með svindli. Hann ætli sér því hvergi að víkja hvernig sem tölurnar verða á og eftir kosninganótt. Stóra spurningin eftir kosningarnar er því: Getur forsetinn setið sem fastast?

Nokkrar leiðir

Samtök um heiðarleg stjórnarskipti, TIP, voru stofnuð í Bandaríkjunum í fyrra. Þau fengu ríflega hundrað núverandi og fyrrverandi stjórnmálamenn og starfsmenn kosningaframboða til þess að ráða fram úr mögulegum aðstæðum eftir kosningarnar í nóvember. Samtökin tóku saman niðurstöður þeirra og birtu í síðasta mánuði.

Pattstaða

Sú staða getur komið upp að sjálfa kosninganóttina hafi hvorugur frambjóðendanna tryggt sér þá 270 kjörmenn sem þarf. Tekið hefur verið sem dæmi að báðir eigi möguleika á að tryggja sér nægan fjölda þegar talningu er ólokið í Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin. Þau eru meðal svonefndra sveifluríkja, þar sem fylgið sveiflast á milli Demókrata og Repúblikana í hverjum kosningum. Þessi þrjú ríki eiga það líka sameiginlegt að Repúblikanar sitja í meirihluta þingsæta þeirra, en ríkisstjórarnir eru Demókratar. Þar er talningafólki líka bannað að telja póstatkvæði fyrr en á kjördag.

Í þessum þremur ríkjum getur því komið upp sú staða að áður en póstatkvæði verða talin verði Trump með meirihluta atkvæða í þeim. Svo gæti farið að hann lýsi því yfir sigri, en þegar búið verður að telja póstatkvæðin komi í ljós að Biden hafi hlotið meirihluta í ríkjunum.

Repúblikanar á ríkisþingunum gætu því lýst Trump sigurvegara, til að mynda með því að taka undir efasemdir Trumps um lögmæti póstatkvæða. Á móti gætu ríkisstjórarnir litið á öll talin atkvæði, og lýst Biden sigurvegara. 6. Janúar á næsta ári kemur Bandaríkjaþing saman og fær opinberar niðurstöður um fjölda kjörmanna í hverju ríki. Vandinn er að frá Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin koma misvísandi niðurstöður.

Krísa sem ekki sér fyrir enda á

Lawrence Douglas, lagaprófessor við Amherst háskólann í Massachusetts, hefur velt þessari stöðu fyrir sér. Það yrði undir þinginu komið að ákvarða hvorar niðurstöður ríkjanna væru lögmætar, ríkisþinganna eða ríkisstjóranna. Þar sem fulltrúadeildin er í meirihluta Demókrata og öldungadeildin í meirihluta Repúblikana eru talsverðar líkur á að niðurstöður deildanna yrðu ekki þær sömu. Þar með er komin pattstaða, segir Douglas í grein sem hann skrifar á Guardian. Í dæminu hans ákveða hæstaréttardómarar að skipta sér ekki af niðurstöðu þingdeildanna þar sem fullvíst þykir að flokksmenn þingflokkanna uni ekki niðurstöðu sem sé gegn þeim.

Þingið kemst ekki að niðurstöðu þar sem flokkarnir neita að játa ósigur. Úr verða mótmæli, sem Trump kveður niður með því að kalla út herinn til þess að verja „kosningasigurinn.“ Að lokum sér Douglas fyrir sér að Bandaríkin standi í krísu sem ekki sjái fyrir friðasaman endi á.

Pelosi Bandaríkjaforseti?

Ekki er þetta björt framtíðarsýn, en heldur ekki sú eina. Edward Foley, prófessor við Moritz lagaháskólann í Ohio-ríki, sér fyrir sér svipaðan möguleika. Það er að ekki verði einhugur um niðurstöður í Pennsylvaníu. Hann sér fyrir sér að sem forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings eigi varaforsetinn Mike Pence eftir að úrskurða að kjörmenn frá Pennsylvaníu verði teknir úr jöfnunni og Trump verði lýstur sigurvegari með meirihluta þeirra 518 kjörmanna sem eftir standa. Honum þykir fullvíst að Demókratar eigi eftir að hafna þessari niðurstöðu. Þeir eigi eftir að fara með málið fyrir hæstarétt, sem óvíst er að vilji taka afstöðu eins og í dæminu að ofan.

Samkvæmt tuttugasta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar tekur nýr forseti við 20. Janúar. Hvergi er minnst á það í viðaukanum hvernig fara skuli að ef óeining er um hver eigi að taka við embættinu. Foley segir í grein á Fivethirtyeight að samkvæmt lögum um rétt til að taka við embætti forseta gæti Nancy Pelosi gert kröfu um að verða sett í embætti og gegni því þar til Biden verður lýstur sigurvegari. Repúblikanar gætu hins vegar mælst gegn þessu. Foley neitar að spá fyrir um framhaldið í þessari stöðu.

Veltur á Repúblikönum

Ef einhvers konar staða af þessu tagi kemur upp eftir kosningar veltur framhaldið að miklu leyti á því hversu langt Repúblikanar á Bandaríkjaþingi og ríkisþingum eru tilbúnir að ganga til þess að halda Trump í embætti. Rosa Brooks, lagaprófessor við Georgetown háskóla, og einn stofnenda TIP, nefnir að þó Trump hafi mörg tromp á hendi sem sitjandi forseti, geti hann ekki gengið lengra en stuðningsmenn hans eru tilbúnir að fylgja honum. Til þess að benda á muninn á milli frambjóðenda ef niðurstöður kosninganna verða umdeildar „þá getur Biden boðað blaðamannafund, en Trump getur kallað út 82. Deild flughersins,“ segir Brooks.

Meðal leiða sem Trump og framboð hans getur gripið til eftir kosningarnar samkvæmt TIP eru:

  • Að krefjast endurtalningar í þeim ríkjum þar sem niðurstaðan er tvísýn.
  • Þá getur hann einnig krafist sameiginlegra rannsóknar ríkis- og alríkisstofnana á meintum kosningasvikum til þess að grafa undan trausti kjósenda á úrslitunum.
  • Hann getur reynt að hægt á talningu póstatkvæða með því að höfða mál fyrir ríkisdómstólum eða treyst á að leiðtogar úr Repúblikanaflokknum stöðvi talningu atkvæða eða lýsi yfir niðurstöðu snemma án þess að bíða eftir opinberum niðurstöðum.
  • Hann gæti leitað til vel skipulagðra stuðningsmanna um að fara út á götur og lýsa yfir stuðningi við Trump. Þar gæti hann ýtt undir það með því að breiða út rangar upplýsingar um hættuna sem stafar af mótmælendum sem styðja Biden.
  • Svo getur hann nýtt ríkisstofnanir til þess að réttlæta eða styðja við aðferðir sínar. Í einu dæmanna sem TIP setti upp fékk framboð Trumps dómsmálaráðherrann Bill Barr til þess að leggja hald á póstatkvæðaseðla til þess að tryggja að atkvæðin verði ekki talin.

Ekki tilbúinn að tapa

Hér er aðeins velt upp nokkrum möguleikum sem gætu komið upp eftir kosningarnar 3. Nóvember næstkomandi. Trump tók það skýrt fram í viðtali við Chris Wallace á Fox fréttastöðinni í sumar að hann sé ekki tilbúinn að samþykkja úrslit kosninganna ef þau verða honum í óhag. Síðan þá hefur hann margítrekað það og lýsti hann því meðal annars yfir á kosningafundum að eini möguleikinn á tapi í kosningunum sé stórfellt kosningasvindl gegn honum.

Biden með forskot

Eins og staðan er í skoðanakönnunum, nú þegar um einn og hálfur mánuður er til kosninga, er Biden með talsvert forskot. Á vef Realclearpolitics er Biden talinn öruggur með 222 kjörmenn en Trump 125. 270 þarf til þess að ná kjöri. Baráttan virðist að mestu standa um 191 kjörmann víðs vegar um Bandaríkin. Biden hefur lengi verið með forskot í könnunum í mörgum þessara ríkja, en síðustu vikur hefur Trump vaxið nokkuð ásmegin í könnunum. Það bendir því flest til spennandi kosninganætur í byrjun nóvember, og áhugaverðra daga þar á eftir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi