Handrit SKAM-þáttanna gefin út á bók

Mynd með færslu
 Mynd: Af vef P3. - Af vef P3

Handrit SKAM-þáttanna gefin út á bók

18.09.2020 - 14:32
Norsku unglingaþættirnir SKAM vöktu mikla athygli þegar þeir voru frumsýndir árið 2015. Þættirnir fjölluðu um líf ungmenna sem voru að byrja í framhaldsskóla og fylgdu þeim út framhaldsskólagönguna. Nú hafa verið gefnar út bækur eftir þáttunum og þar má meðal annars lesa um atriði sem hætt var við að hafa í þáttunum.

Þættirnir SKAM eru höfundarverk kvikmyndagerðarkonunnar Julie Andem og bækurnar eru í raun handritið að þáttunum nákvæmlega eins og það var skrifað. Erla E. Völudóttir þýðir bækurnar á íslensku. Hún þýddi einnig þriðju og fjórðu þáttaröð SKAM.

Fyrsta bókin er komin út og önnur bókin er væntanleg á næstu dögum. Þá er einnig von á tveimur bókum til viðbótar.

„Þetta eru sem sagt handritin að þáttaröðunum sem voru gefin út í bókaformi, ein bók fyrir hverja þáttaröð. Þannig að ein bók inniheldur alla þættina í þeirri seríu og er í raun eins og handrit með nöfnum persóna og díalóglínum. Svo bætast við lýsingar á aðstæðum og stemningu, dálítið eins og í leikritshandriti,“ segir Erla E. Völudóttir, þýðandi.

Erla segir að handritin séu frekar hrá. „Sums staðar stendur t.d. bara "xxxxxx" í staðinn fyrir kaflaheiti eða dagsetningu, af því það var ekki búið að fylla það inn.“ Hún segir að helsti munurinn á þáttunum og bókunum sé að í bókunum séu hafðar með senur og samtöl sem ákveðið var að sleppa eða voru klippt úr þáttunum. „Sá texti er með gráu letri þannig að lesandinn sjái hvað endaði ekki í þáttunum. Stundum er Julie Andem líka bara að ranta eitthvað um hvernig senurnar eiga að vera sem er frekar fyndið.“

Allir SKAM-þættirnir eru einnig komnir í spilarann.