Hagstæðara að reisa stærra hús fyrir innanhússíþróttir

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Hagstæðara að reisa stærra hús fyrir innanhússíþróttir

18.09.2020 - 07:55
Það er um 800 milljónum króna dýrara að reisa þjóðarleikvang fyrir innanhússíþróttir sem tæki 8.600 áhorfendur en fyrir 5.000 áhorfendur. Stærra hús myndi leysa án aukakostnaðar húsnæðisþörf til langrar framtíðar auk þess sem það gæfi meiri möguleika á nýtingu til menningarviðburða. Laugardalur er fyrsta val starfshóps fyrir slíkt íþróttahús.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps sem var ætlað að gera tillögur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir. Skýrslan var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku og lögð fyrir borgarráð í dag.

Starfshópurinn tekur þó ekki afstöðu til þess hvort rétt sé að byggja stærra eða minna húsið og hefur honum verið falið að starfa áfram.

Fram kemur í skýrslunni að engin mannvirki á Íslandi uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til sérsambanda vegna alþjóðlegrar keppni eða landsleikja í handknattleik eða körfubolta. Til að uppfylla þær kröfur verði að reisa nýtt mannvirki.

Heildarkostnaður stærra hússins er áætlaður um 8,7 milljarðar króna en 7,6 milljarðar við það minna. „Stærra hús er hlutfallslega ódýrara í byggingu. Aukinn kostnaður felst í hækkun auk salerna og aðstöðu. Stækkun hússins er því frekar hagstæð,“ segir í skýrslunni.

Meðal þeirra sem starfshópurinn ræddi við var Ísleifur B. Þórhallsson hjá Senu sem er stærsti tónleikahaldari landsins. Fram kom í máli hans að mikil þörf væri á tónlistarhúsi sem tæki 12 þúsund manns og þar af stóran hluta í sæti.

Bent er á í skýrslunni að það yrði mikil lyftistöng fyrir menningarstarf að hafa möguleika á slíku tónleikahaldi þótt ekki væri markaður til að halda marga tónleika á hverju ári.

Starfshópurinn var sammála um að Laugardalur í Reykjavík væri fyrsti kosturinn. Hann skoðaði einnig Garðabæ og Hlíðarenda og svæði Fram við Safamýri í Reykjavík.

Hópurinn telur ekki skynsamlegt að blanda verkefninu saman við þjóðarleikvang í knattspyrnu þótt hann útiloki ekki að slíkt gæti komið til skoðunar síðar. Á það er samt bent að ekki séu mörg íþróttamannvirki í Evrópu sem hafi verið byggð saman.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði létu bóka þegar skýrslan var kynnt að brýnt væri að eyða óvissu um uppbyggingu þjóðarleikvangs sem fyrst. Óvissan mætti ekki bitna á börnum í hverfum borgarinnar. „Sem dæmi má nefna að málefni Þróttar í Laugardalnum hafa lengi setið á hakanum vegna óvissu í þessum málum.“