Fyrsta skipti sem ákært er fyrir að bana þremur

Mynd með færslu
 Mynd: Markús Þórhallsson - RÚV
Ákæra á hendur manni vegna dauða þriggja í íkveikju í Reykjavík í sumar er sú fyrsta þar sem maður er ákærður fyrir að verða svo mörgum að bana, eftir því sem næst verður komist. Maðurinn er ákærður fyrir íkveikju og manndráp á þremur.

Héraðssaksóknari gaf í dag út ákæru á manninum sem er á sjötugsaldri. Hann er ákærður fyrir manndráp á pari og þriðja manni í íkveikju á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu. Hin látnu voru öll pólskir ríkisborgarar sem hér bjuggu.

Þetta er í fyrsta skipti sem maður er ákærður fyrir að hafa orðið þremur að bana, svo vitað sé. Fyrir tveimur árum var maður sakfelldur fyrir að verða tveimur að bana með því að kveikja eld í húsi á Selfossi. Þá er dæmi um að maður hafi verið sakfelldur fyrir tvö morð en sitt í hvoru lagi. Einnig var sakfellt fyrir morð á tveimur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu undir lok áttunda áratugar síðustu aldar en sakfelldu voru sýknaðir í endurupptöku málsins árið 2018. Unglingspiltur drekkti tveimur ungum drengjum á Akureyri um 1990. Gerandinn var það ungur að hann var ekki ákærður og unnið í máli hans innan heilbrigðiskerfisins. 

Viðmælendur fréttastofu kannast ekki við mál þar sem ákært hefur verið fyrir að verða jafn mörgum að bana og í eldsvoðanum á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu.

Í færslu á Wikipedia er listi yfir morð á Íslandi. Algengast er að einn hafi verið myrtur, stundum hefur gerandi svo svipt sig lífi. Árið 1953 eitraði maður fyrir sér og allri fjölskyldu sinni. Hann, kona hans og þrjú börn létust öll.

Haldið til haga: Hér er miðað við seinni tíma réttarfarssögu. Axlar-Björn var sagður hafa myrt átján á sextándu öld og dæmdur til dauða fyrir hluta þeirra morða.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi