Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ein ferð Icelandair á áætlun í dag – 20 ferðum aflýst

18.09.2020 - 08:48
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Aðeins er áætluð ein flugferð á vegum Icelandair í dag og félagið hefur aflýst 20 ferðum. Snemma í morgun var einni vél félagsins flogið til Íslands frá Boston og einni héðan til Kaupmannahafnar. Flugferðir annarra félaga, eins og Wizz Air, SAS, Air Baltic, EasyJet og Lufthansa, eru á áætlun.

Langflestum ferðum Icelandair sem áætlaðar voru á morgun hefur að sama skapi verið aflýst en á sunnudag eru þær allar enn á áætlun. 

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, hefur sagt að ferðum sé gjarnan aflýst með mjög stuttum fyrirvara enda sveiflist eftirspurnin hratt. Félagið leiti allra leiða til að laga framboð að eftirspurn.

Meiri hluta ferða verið aflýst síðustu vikur

Icelandair hefur aflýst langflestum áætluðum flugferðum síðustu vikurnar. Í gær var 10 flugferðum félagsins aflýst, þremur vélum lent á Keflavíkurflugvelli, frá London, Kaupmannahöfn og Tallin, og tveimur flogið héðan, til London og Kaupmannahöfn. Áætlaðar flugferðir annarra félaga voru allar farnar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagðist í samtali við fréttastofu fyrr í mánuðinum ekki geta svarað fyrir það hvers vegna félagið þyrfti að fella niður svo stóran hluta ferða á meðan erlendu félögin héldu áætlun. Hann sagði félagið ekki hafa efni á að fljúga hálftómum vélum. 

Þegar flug er fellt niður býður Icelandair farþegum þrjá kosti; þeir geta fundið nýja dagsetningu, fengið inneign eða fengið endurgreiðslu. Neytendasamtökin hafa vakið athygli á því að þau telji að fólk sem átti bókað í þessar ferðir eigi rétt á bæði endurgreiðslu og skaðabótum. Samtökin hafa hvatt fólk til að sækja rétt sinn.